„Trans er að ég fæddist sem stelpa, en ég vildi samt vera strákur. Eða ég er strákur, en samt er ég stelpa,“ segir Alex Grétar, einn fjögurra barna sem er fjallað um í þáttunum Trans börn. Fyrsti þáttur var sýndur í opinni dagskrá og hægt er að horfa á hann í heild sinni í spilaranum neðar í fréttinni. Aðeins fyrsti þátturinn af þremur var í opinni dagskrá, en stjórnendum Stöðvar 2 fannst að þessi þáttur ætti einfaldlega erindi við sem flesta.
Sjá einnig: Gefur innsýn í líf fjögurra íslenskra trans barna
Trans börn er heimildarþáttaröð í þremur hlutum en í fyrsta þætti kynnumst við Alex Grétari og Gabríelu Maríu og fjölskyldum þeirra. Þættirnir gefa innsýn í það hvernig það er fyrir þau að taka stórar og afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð sína á táningsaldri.
„Mér leið alveg illa á sumum dögum, eins og það væri eitthvað að mér.“ segir Gabríela María en hún leit samt aldrei á sig sem annað en stelpu.
Fjölskyldurnar fjórar opna sig upp á gátt í þáttunum. Þau lýsa því hvenær fyrstu merkin fóru að sjást um að börnin upplifðu sig í öðru kyni en því sem þeim var úthlutað við fæðingu. Sumir foreldranna streittust á móti í byrjun, jafnvel með því að banna ákveðinn klæðaburð eða með því að snoða hárið í stað þess að leyfa því að verða sítt.
„Það er voðalega gott að geta sagt við foreldra að barnið þitt hefur alla möguleika til að verða hamingjusamt og meiri möguleika á að verða hamingjusamt ef það fær að vera það sjálft,“ segir segir Sigríður Birna Valsdóttir ráðgjafi hjá Samtökunum 78. Hún segir að flestir foreldrar trans barna sem hún hittir, hafi fengið að heyra frá öðru fólki að þau séu að ýta barninu sínu út í einhverja hegðun með því að leyfa því að vera eins og það er.
Framleiðandi þáttanna er Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, Sigrún Ósk Kristjánsdóttir sér um umsjón og klippingu annast Fannar Scheving Edwardsson. Friðrik Friðriksson sá um myndatöku. Næsti þáttur er á dagskrá Stöðvar 2 næsta sunnudag strax á eftir fréttum.