Fótbolti

Liverpool þarf ekki að hafa áhyggjur af portúgalska undrabarninu annað kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joao Felix verður ekki með á móti Liverpool.
Joao Felix verður ekki með á móti Liverpool. Getty/TF-Images

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Joao Felix missir af fyrri leik Atletico Madrid og Liverpool í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Joao Felix verður ekki í hóp Atletico Madrid annað kvöld þrátt fyrir að vera orðinn leikfær. Hann glímir við veikindi.

Joao Felix tognaði aftan í læri í leik á móti Leganes 26. janúar síðastliðinn og hefur misst af undanförnum þremur leikjum. Hann átti hins vegar að vera kominn til baka fyrir Liverpool leikinn.

Joao Felix er með hálsbólgu og missir því af leiknum. Hector Herrera er líka veikur og þá er Kieran Trippier ekki búinn að ná sér af nárameiðslum.

Joao Felix hélt upp á tvítugsafmælið sitt í nóvember síðastliðnum. Hann hefur skorað 4 mörk í 24 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili sem er hans fyrsta með Atletico Madrid.

Joao Felix verður væntanlega búinn að ná sér að fullu fyrir seinni leik liðanna á Anfield sem fer fram 11. mars næstkomandi.

Leikur Atletico Madrid og Liverpool fer fram á Wanda Metropolitano í Madrid annað kvöld og hefst klukkan 20.00. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×