Innlent

Braust inn í apó­tek og stal lyfjum að verð­mæti 300 þúsund

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn stal ofvirkni-, geð- og verkjalyfjum.
Maðurinn stal ofvirkni-, geð- og verkjalyfjum. Vísir/egill

Maður var í Héraðsdómi Reykjaness um miðjan júlí dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir ýmis brot, m.a. þjófnað á lyfjum að andvirði 300 þúsund króna.

Tvö mál gegn manninum í alls sex ákæruliðum voru sameinuð. Manninum var m.a. gefið að sök að hafa kannabisefni og amfetamín í fórum sínum og að hafa brotið spegil á salerni með því að kasta í hann ruslatunnu.

Þá var hann ákærður fyrir þjófnað á ofvirkni-, geð- og verkjalyfjum úr apóteki í tvígang árið 2019. Maðurinn hafi fyrst spennt upp glugga apóteksins og haft á brott með sér 54 lyfjapakkningum að verðmæti 245 þúsund króna. Þremur dögum síðar hafi hann brotið rúðu í anddyri apóteks og stolið 17 lyfjapakkningum að verðmæti 53 þúsund króna.

Þá var maðurinn ákærður fyrir eignaspjöll með því að hafa kastað útihúsgögnum með þeim afleiðingum að borðplötur að verðmæti 55 þúsund króna eyðilögðust. Maðurinn játaði sök samkvæmt ákærum.

Maðurinn á samkvæmt dómi nokkuð langan sakaferil að baki og var dæmdur til fangelsisvistar árið 2018 og einnig árið eftir. Um var að ræða þjófnað, umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot.

Maðurinn var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og gert að greiða þóknun verjanda síns, alls um 442 þúsund krónur.

Þá þótti dómnum ekki tilefni til að gera upptæka skó sem ákæruvaldið krafðist að gerðir yrðu upptækir úr vörslu mannsins. Að öðru leyti voru upptökukröfur ákæruvaldsins teknar til greina. Þannig voru gerð upptæk North pike íþróttataska, Versace parfum íþróttataska, hamar, bláir vinnuhanskar, grá derhúfa, LED-ennisljós og 1,41 gramm af amfetamíni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×