Hægt er að fylgjast með þinginu í beinu streymi, en áætlað er að rúmlega fjögur hundruð alþjóðlegir kvenleiðtogar komi til Reykjavíkur til þátttöku.
Meðal þátttakenda í ár eru:
- Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.
- Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands og mannréttindalögfræðingur.
- Maria Ressa, friðarverðlaunahafi Nóbels og stofnandi Rappler.
„Þessar konur, ásamt fjölda annarra leiðtoga í jafnréttismálum, munu deila innsýn sinni og reynslu til að efla samstarf og aðgerðir á sviði jafnréttis.
Á þinginu verða kynntar niðurstöður Reykjavik Index for Leadership 2024 í samstarfi við rannsóknarfyrirtækið Verian. Mælingin metur afstöðu almennings í ólíkum löndum til kvenna og karla í leiðtogastöðum, og eru sérstakar niðurstöður fyrir Ísland hluti af rannsókninni,“ segir í tilkynningu.
Hæger að fylgjast með þinginu í beinu streymi að neðan.
Fyrri dagur, 11. nóvember:
Seinni dagur, 12. nóvember:
Um þingið segir að það leggi áherslu á fjóra meginþætti, sem byggi á árangri Íslands í jafnréttismálum:
- Aðgerðir til aukins launajafnréttis.
- Fjölgun kvenna í forystu.
- Jafnan rétt kynjanna til töku fæðingarorlofs.
- Aðgerðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi.
Tilgangur þingsins er að skapa vettvang fyrir opna umræðu og hvetja til raunhæfra aðgerða sem stuðla að jafnrétti kynjanna á heimsvísu. Með því að safna saman leiðtogum úr ólíkum geirum er markmiðið að deila bestu starfsvenjum og finna nýjar leiðir til að takast á við áskoranir.
Haft er eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, stjórnarformann og einn af stofnendum Heimsþings kvenleiðtoga, að þingið sé nú haldið í sjöunda sinn og hafi á þeim tíma fest sig í sessi sem mikilvægan vettvang fyrir samstarf í átt að auknu jafnrétti.
„Á þessu mikla kosningaári, 2024, verður sjónum sérstaklega beint að mikilvægi jafnréttis fyrir lýðræðið. Einnig má ætla að tækni og atvinnulíf í breiðu samhengi, með hliðsjón af jöfnum tækifærum kynja, verði til sérstakrar umræðu. Stór hluti umræðunnar beinist einnig að stöðu jafnréttismála á Íslandi og því sem heimurinn getur lært af okkar reynslu,“ er haft eftir Hönnu Birnu.