Það er sannkallaður stórleikur á Kópavogsvelli annað kvöld þegar Íslandsmeistarar Vals koma í heimsókn. Júlíana Þóra Hálfdánardóttir ræddi við Kristínu Ýr Bjarnadóttur – einn sérfræðinga Pepsi Max markanna – í Sportpakka kvöldsins á Stöð 2.
Frétt Sportpakkans má sjá í spilaranum hér að neðan.
Breiðablik og Valur voru sterkustu lið Pepsi Max deildar kvenna á síðustu leiktíð. Gerðu þau jafntefli í báðum leikjum sínum á síðustu leiktíð og þá hefur hvorugt lið tapað leik það sem af er í deildinni.
Topplið Vals heimsækir Breiðablik í stórleik 7. umferðar Pepsi Max deildarinnar en flautað verður til leiks klukkan 19:15 á Kópavogsvelli annað kvöld.
„Þetta er risastór leikur. Úrslitaleikur í raun eins og þetta hefur spilast í fyrri umferðinni, eins og við mátti búast. Liðunum var spáð fyrstu tveimur sætunum. Þetta er eitthvað sem allir sem hafa einhvern áhuga á fótbolta ættu að fylgjast með,“ sagði Kristín Ýr.
Valur gerði 1-1 jafntefli við Fylki í síðustu umferð þar sem liðið var manni færri frá 2. mínútu leiksins. Breiðablik hefur unnið alla fjóra leiki sína án þess að fá á sig mark en þar sem liðið var í sóttkví í tvær vikur hefur það leikið tveimur leikjum minna en Valur.
„Eini munurinn er að Breiðablik fór í sóttkví en ekki Valur,“ sagði Kristín Ýr um muninn á liðunum og því má reikna með hörkuleik á Kópavogsvelli annað kvöld.
Leikurinn verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.