Innlent

Tíu ár fyrir til­raun til mann­dráps

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í Neskaupstað á Austurlandi.
Árásin átti sér stað í Neskaupstað á Austurlandi. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur dæmt Sigurð Sigurðsson í tíu ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps í árás sem gerð var í heimahúsi í Neskaupstað síðasta sumar.

Dómurinn þyngdi þar með dóm Héraðsdóms Austurlands sem dæmdi manninn í sex ára fangelsi í nóvember síðastliðinn. Sigurði var sömuleiðis gert að greiða fórnarlambinu 2,7 milljónir króna í miskabætur.

Sigurður var dæmdur fyrir að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 10. júlí síðastliðinn, margsinnis ráðist á mann með eggvopni í heimahúsi í Neskaupstað með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut lífshættulega áverka og flytja þurfti hann með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Stakk fórnarlambið í háls og margsinnis í líkama

Sigurður stakk manninn í hálsinn og margsinnis í líkama, þar á meðal hægra megin framan á brjóstkassa, í kvið, í hægri síðu, mjaðmakamb og bak, hægri öxl, upphandlegg og hendi og vinstri hendi.

Málinu var áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins, en Landsréttur staðfesti sakfellingu og heimfærslu brots hans til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að sannað þótti að Sigurður hefði sýnt einbeittan brotavilja við verknaðinn og að hending ein hefði ráðið því að fórnarlambið hefði ekki látist.

Beinn ásetningur að fórnarlambið biði bana af

Talið var að atlagan hefði verið með þeim hætti að það hafi verið beinn ásetningur Sigurðar að fórnarlambið biði bana af. 

Í dómi héraðsdóms kom fram að Sigurður hafi farið frá heimili sínu með tvo hnífa að heimili mannsins í um eins og hálfs kílómetra vegalengd, þar sem hann réðst á brotaþola og beitti eggvopni margsinnis með heiftúðlegum hætti gegn honum og veitti honum lífshættulega áverka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×