Innlent

Leikskólastarfsmenn í Hafnar­firði greiða at­kvæði um verk­fall

Bjarki Sigurðsson skrifar
Atkvæðagreiðslan hófst á miðvikudag og lýkur á þriðjudag.
Atkvæðagreiðslan hófst á miðvikudag og lýkur á þriðjudag. Vísir/Hanna

Félagsmenn verkalýðsfélagsins Hlífar sem starfa á leikskólum Hafnarfjarðar greiða ný atkvæði um verkfall. Verði tillagan samþykkt fara starfsmenn í verkfall í tvo sólarhringa á tímabilinu 21. nóvember til 5. desember. 

RÚV greinir frá atkvæðagreiðslunni. Þar segir að deila félagsins við bæinn snúi um kröfu um undirbúningstíma, en ekki laun. Fólk sem starfi á leikskólunum fái tækifæri til að sinna undirbúningi innan dagvinnumarka.

Viðræður hafa staðið yfir í eitt og hálft ár og krefst Hlíf að starfsmenn sem sinna faglegu starfi fái tvo klukkutíma í hverri viku í undirbúning. 315 manns kæmu til með að leggja niður störf í sautján leikskólum. 

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að það komi fulltrúum sveitarfélagsins á óvart að verkalýðsfélagið hefji þessa atkvæðagreiðslu. Laun ófaglærðs starfshóps hafi hækkað umfram almenna kjarasamninga í febrúar á síðasta ári og starfsemi leikskólanna almennt verið umbylt. 

„Umbreytingin á leikskólunum hefur náð til allra starfshópa innan þeirra, þar með talið ófaglærðs starfsfólks, sem starfar samkvæmt kjarasamningi Hlífar. Bærinn hefur einnig stutt starfsfólk sitt til að sækja sér menntun í faginu. Fjöldi starfsmanna hefur nýtt þann stuðning samhliða störfum til réttindanáms í faginu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×