Skoðun

Sveitar­fé­lögum fórnað á líf­seigu altari skömmtunar­kerfisins

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Sveitarfélög landsins hafa sl. áratug barist fyrir því að gerð yrði breyting á lögum um virðisaukaskatt í þá veru að sveitarfélög fái 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Nokkrir af þingmönnum sjálfstæðisflokksins hafa einnig í tvígang á yfirstandandi kjörtímabili lagt fram þingmannafrumvörp til stuðnings kröfu sveitarfélaganna þess efnis að sveitarfélögin fengju undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum. Ríkisskattstjóri hefur svo síðar bent á að endurgreiðsluleið sveitarfélaganna sé hentugri leið að sama marki þ.e. að „afnema“ virðisaukaskatt af fráveituframkvæmdum sveitarfélaga þar sem þingmannaleiðin myndi á endanum vinna gegn markmiði sínu samkvæmt skattalöggjöfinni.

Í dag er fyrirhugað að tekið verði fyrir á Alþingi stjórnarfrumvarp umhverfisráðherra til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, með síðari breytingum. Umhverfisráðherra fer þar þvert gegn vilja sveitarfélaganna og nokkurra þingmanna sjálfstæðisflokksins með að velja leið styrkja- og skammtafyrirkomulags þar sem undir hæl hans verður lagt hvort eða hvaða sveitarfélög muni fá styrki til nauðsynlegra fráveituframkvæmda. Undirritaður hefði fyrirfram haldið að skömmtunarkerfi væru ekki sérstakt áhugamál núverandi fjármálaráðherra og því kemur það á óvart við lestur greinargerðarinnar með frumvarpinu að sjá að samráð hafi verið haft við fjármála- og efnahagsráðuneytið við gerð þess.

Við yfirferð frumvarps umhverfisráðherra auk fylgigagna má sjá að skömmtunarkerfið lifir enn. Í dag á að fórna sveitarfélögum landsins á lífseigu altarinu.

Höfundur er bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg og varaformaður bæjarráðs og formaður eigna- og veitunefndar.




Skoðun

Sjá meira


×