Innlent

Úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna and­láts í Úlfarsár­dal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hinn grunaði var leiddur fyrir dómara eftir hádegið í dag. Hann var með glóðurauga og skurð við vinstra auga.
Hinn grunaði var leiddur fyrir dómara eftir hádegið í dag. Hann var með glóðurauga og skurð við vinstra auga. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur í gærkvöldi og í morgun yfirheyrt mennina fimm sem handteknir voru í Úlfarsárdal, síðdegis í gær eftir að maður féll fram af svölum fjölbýlishúss. Maðurinn, sem var á sextugsaldri, lést af sárum sínum.

Farið var fram á gæsluvarðhald yfir einum þeirra til 19. desember nk. og féllst Héraðdsómur Reykjavíkur á þá kröfu lögreglunnar. Hinum fjórum hefur verið sleppt úr haldi. Maðurinn sem er í haldi lögreglu er um fimmtugt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um miðjan dag að karlmaður hefði fallið fram af svölum fjölbýlishúss við Skyggnisbraut í Úlfarsárdal.

Fjölmenn lið lögreglu- og sjúkraflutningamanna var sent á vettvang auk sérsveitar Ríkislögreglustjóra. Maðurinn var fluttur á slysadeild þar sem hann var úrskurðaður látinn.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu þurftu lögreglumenn að brjóta sér leið inn í íbúð á þriðju hæð þar sem fimm menn voru innan dyra. Voru þeir allir handteknir vegna málsins.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að mennirnir hafi verið yfirheyrðir í gærkvöldi og í morgun. Mennirnir eru allir frá Litháen samkvæmt heimildum fréttastofu og eru hér á landi í tímabundinni vinnu.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að rannsókn miði vel og miði að því að leiða í ljós með hvaða hætti maðurinn féll fram af svölunum.



Fréttin var uppfærð kl. 17:57.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×