Skoðun

Breytingar í búnings­klefanum

Sigríður Hrund Pétursdóttir skrifar

Við sitjum saman og bíðum eftir börnunum okkar inni í búningsklefa. Sum okkar lokkast í símann, önnur spjalla saman, en alltaf eru nokkur sem sitja bara og lygna aftur augunum og njóta augnabliksins. Svo birtast börnin – rjóð eftir fimleikaæfinguna og glöð að sjá okkur. Himinlifandi að það sé fullorðinn elskandi einstaklingur að verja tímanum í samveruna. Umhyggjuna. Spjallið á meðan verið er að klæða sig í fötin, fá sér vatn að drekka í vatnshananum, finna út úr reimunum og berjast við rokið á leiðinni út í bíl.  Það sem er ánægjulegast við þessa lýsingu er hið ósagða. Við erum nefninlega afar, ömmur, pabbar, mömmur, frændur og frænkur allt í bland. Bæði kynin á öllum aldri.0



Fyrir rúmum áratug og fyrr sást ekki pabbi eða afi á svæðinu. Umönnun í búningsklefanum var öll í höndum kvenna. Þeir mættu þegar var sýning eða keppni, en sjaldan í daglegu amstri. Það var bara andi og tilvera þess tíma. Það að við séum öll til skiptis í búningsklefanum í dag er ekkert minna en frábært. Og á að vera algerlega eðlilegt í okkar samfélagi. Eðlilegur hluti af samveru fjölskyldunnar.



Það að geta öll mætt í búningsklefann kemur ekki af sjálfu sér. Það þýðir að vinnutími er sveigjanlegur, að hlutverkaskipting heimilanna er að jafnast á milli kynja og kynslóða, að við viljum, þráum og óskum eftir að geta notið samvista við börnin okkar í daglega lífinu og leggjum talsvert á okkur til að svo geti verið.



Jafnrétti, sveigjanleiki og fjölbreytni er ávísun á heilbrigt atvinnulíf og á sér margar birtingarmyndir. Búningsklefinn er ánægjulegt dæmi um að við erum á réttri leið sem samfélag.



Höfundur er ritari stjórnar FKA, í eigin rekstri og fjögurra barna móðir.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×