Skoðun

Að hanga heima

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Þegar ég var yngri voru stífar æfingar daginn fyrir hæðarmælingu hjá skólahjúkrunarfræðingnum: Stattu bein í baki, lyftu upp bringunni og teygðu úr hálsinum eins og sé verið að draga þig upp á hnakkadrambinu. Tugir ára hafa liðið síðan en samt man ég þetta eins og hafi gerst í gær.

Ég er ekki af hávöxnu kyni og því skipti hver millimetri máli í mælingum sem þessum. Hæðarmetið mitt var 160,5 cm - þessi hálfi var alltaf tiltekinn þegar ég var spurð um hæð. Í læknanáminu lærði ég að við byrjum að skreppa saman eftir 25 ára aldur því liðbil hryggjarliðanna minnka með árunum. Eina leiðin til að stækka eftir það væri á þverveginn.

Eftir það hætti ég að hæðarmæla mig og hélt mig við töluna þegar ég var sem spengilegust. Allt þangað til ég fór nýverið í læknisheimsókn í Bandaríkjunum. Þar ertu hæðarmældur í hverri heimsókn eins og í ungbarnaeftirliti. Ég rak upp stór augu þegar mér var tilkynnt að ég hefði slegið hæðarmet mitt um 1,5 cm.

Hóflega bjartsýn taldi ég að um skekkju væri að ræða en þegar næstu þrjár mælingar sögðu allar það sama á mismunandi stöðum og hjá mismunandi aðilum, þá runnu á mig tvær grímur. Getur fullvaxta manneskja lengst? Það kæmi mér ekki á óvart að það að klifra, ástunda yoga og hanga mikið heima (sem er Yin Yoga æfing) hafi teygt úr stelpunni. Enda var kennt í Yin Yoga námi sem ég sótti að ákveðnar æfingar geti lengt liðbilin og snúið við samskreppingarferlinu.

Ólafur Ragnar sagði eftirminnilega í forsetatíð sinni við Everestfarana að þjóðin væri í skýjunum. Ég á vissulega nokkuð í land með að komast það hátt en það er gaman til þess að hugsa að það geti tognað eilítið á okkur seinna á ævinni!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×