Innlent

Velti stolnum bíl á ofsahraða við eftirför lögreglu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svona komu lögreglumenn að bílnum við gatnamótin hjá Melahverfi í gær.
Svona komu lögreglumenn að bílnum við gatnamótin hjá Melahverfi í gær. Mynd/Lögregla
Lögreglan á Vesturlandi veitti ökumanni á stolnum bíl eftirför í gær frá Akrafjalli að Melahverfi. Ökumaðurinn missti þar stjórn á bifreiðinni, ók út af og velti bifreiðinni. Hann reyndist ekki slasaður og var vistaður í fangaklefa.

Lögregla á Vesturlandi greinir frá þessu í tilkynningu og birtir með mynd af vettvangi, þar sem bíllinn sést á hliðinni eftir að hafa hafnað utan vegar.

Skömmu áður en eftirförin hófst hafði lögreglu verið tilkynnt um að bifreið hefði verið solið við Gamla kaupfélagið á Akranesi. Lögreglumenn frá Akranesi mættu bifreiðinni á Akrafjallsvegi þar sem henni var ekið á 139 kílómetra hraða í átt að hringtorginu við Hvalfjarðargöng.

Ökumanninum var gefið merki um að stöðva aksturinn en hann varð ekki við því og var bifreiðinni veitt eftirför.

„Þrátt fyrir að lögreglan væri með forgangsljós tendruð þá jók ökumaðurinn ferðina og ók áfram út úr hringtorginu norður Vesturlandsveg á ofsahraða. Mikil umferð var á Vesturlandsvegi og skapaðist mikil hætta vegna þessa,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Lögreglumenn komu síðan að bifreiðinni við gatnamótin að Melahverfi þar sem hún lenti utan vegar. Ökumaður var handtekinn á staðnum grunaður um nytjastuld á bifreiðinni og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Vesturlands en reyndist ekki slasaður og var vistaður í fangaklefa að skoðun lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×