Innlent

Hótaði að brjóta hausinn á karlmanni með hamri

Eiður Þór Árnason skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Vísir/Vilhelm
Héraðsaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur tveimur karlmönnum á þrítugsaldri fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og hótanir gagnvart öðrum karlmanni. Atvikið átti sér stað í Grafarvogi í júlí 2017.

Hinir ákærðu eru sakaðir um að hafa frelsissvipt manninn í minnst fjórar til sex klukkustundir með því að veitast að honum með ofbeldi, hótunum og neyða hann upp í bifreið sína. Hinir grunuðu eru sakaðir um að hafa ekið með brotaþola um höfuðborgarsvæðið og stoppað á þremur stöðum áður en mennirnir fóru með hann heim til sín. Þar er annar maðurinn sagður hafa snúið fórnarlambið niður, haldið honum niðri, slegið og kýlt ítrekað í andlit, ásamt því að hafa sparkað í afturenda hans.

Hinum manninum er gert að hafa ógnað fórnarlambinu með hamri og hótað að brjóta á honum hausinn ef hann færi ekki inn í bifreiðina. Á meðan bílferðinni stóð er hann einnig sakaður um að hafa slegið og kýlt brotaþola, rifið í hár hans, tekið hann margsinnis hálstaki svo hann átti erfitt með andardrátt og hótað að drepa hann.

Héraðssaksóknari fer fram á að mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Brotaþoli fer fram á tvær og hálfa milljón í miskabætur. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun, þann 3. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×