Körfubolti

Stórsigur á Norðmönnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Íslenska átján ára landsliðið sem keppti á NM fyrr í sumar.
Íslenska átján ára landsliðið sem keppti á NM fyrr í sumar. mynd/kkí
Íslenska landsliðið í körfubolta skipað leikmönnum átján ára og yngri vann stórsigur, 96-69, á Norðmönnum í dag er liðin mættust í B-deild Evrópumótsins í Rúmeníu.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta tók íslenska liðið öll völd á leiknum. Þeir unnu annan leikhlutann 26-10 og leiddu í hálfleik 52-34.

Norðmenn náðu aðeins að minnka muninn í þriðja leikhluta en í fjórða leikhlutanum skelltu strákarnir okkar í lás. Þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum höfðu Norðmenn einungis skorað sex stig.

Strákarnir okkar höfðu svo betur að lokum en munurinn varð 27 stig, 96-69. Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins sem hafði tapað fyrstu þremur leikjunum.

Dúi Þór Jónsson var stigahæstur með 22 stig en Friðrik Jónsson kom næstur með átján stig. Ástþór Svalason gerði þrettán stig og gaf sex stoðsendingar.

Fimmti og síðasti leikur íslenska liðsins í riðlinum er á morgun þegar liðið mætir Lúxemborg. Með sigri leikur liðið um 9. - 16. sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×