Körfubolti

Elvar á leið aftur í atvinnumennsku: Samdi við silfurliðið í Svíþjóð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Vísir/Bára
Elvar Már Friðriksson er á leið aftur út í atvinnumennsku en hann er búinn að semja við sænska félagið Borås.

Elvar Már útskrifaðist úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum á síðasta ári og fór til franska liðsins Denain Voltaire. Franska liðið rifti hins vegar samningi sínum við Elvar í nóvember og kom hann heim og kláraði tímabilið með uppeldisfélaginu Njarðvík.

Landsliðsmaðurinn var einn besti leikmaður Domino's deildarinnar eftir að hann kom heim, var með 21,2 stig að meðaltali í leik, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Njarðvík lenti í öðru sæti í deildinni en tapaði í 8-liða úrslitum fyrir ÍR.

Borås fór alla leið í úrslitaeinvígi sænsku úrvalsdeildarinnar í vor en tapaði þar fyrir Södertälje Kings. Jakob Örn Sigurðarson spilaði með Borås síðustu ár en hann er á heimleið og verður því ekki liðsfélagi Elvars.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×