Fótbolti

„Messi á að vinna Ballon d'Or en ég þigg hann alveg“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Virgil van Dijk hjálpaði Liverpool vinna þann eyrnastóra í fyrsta skipti síðan árið 2005
Virgil van Dijk hjálpaði Liverpool vinna þann eyrnastóra í fyrsta skipti síðan árið 2005 vísir/getty
Lionel Messi ætti að fá Gullboltann Ballon d'Or, verðlaunin fyrir besta knattspyrnumanns heims, þetta árið að mati Virgil van Dijk, en hann tæki þó alveg við þeim sjálfur.

Van Dijk var í hjarta varnar Liverpool í gærkvöldi þegar liðið tryggði sér sigur í Meistaradeild Evrópu með því að vinna Tottenham 2-0. Van Dijk hefur verið lykilmaður í liði Liverpool í vetur og var valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Ballon d'Or eru eftirsóttustu einstaklingsverðlaun fótboltaheimsins og hafa þeir Lionel Messi og Cristiano Ronaldo verið með einokun á verðlaununum síðustu ár, þó Króatinn Luka Modric sé núverandi handhafi þeirra.

„Mér finnst Messi vera besti leikmaður heims og mér finnst að hann eigi að vinna Ballon d'Or,“ sagði van Dijk við fréttamenn að loknum úrslitaleiknum í gærkvöld.

„Ég er ekkert að hugsa um það. En ef ég vinn þá mun ég þiggja verðlaunin. En Messi er sá besti, hvort sem hann var í úrslitaleiknum eða ekki.“

Ballon d'Or verðlaunin eru venjulega veitt í byrjun desembermánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×