Skoðun

Neyðarbílastæði við bráðamóttöku

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Um hríð hefur verið lagt á stöðugjald þegar bifreiðum er lagt á bílastæðum við m.a. bráðamóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi, við fæðingardeildina við Hringbraut og víðar við deildir sjúkrahússins. Samkvæmt upplýsingum frá Bílastæðasjóði er umrædd gjaldtaka tilkomin að frumkvæði Landspítala – háskólasjúkrahúss í því skyni að koma í veg fyrir að þessi stæði séu teppt fyrir þeim sem leita þurfa til viðkomandi stofnana, ekki síst með bílum starfsmanna sjúkrahússins.

Það gefur augaleið að oft stendur þannig á að fólk sem kemur á bráða- og neyðarmóttökur á eigin bíl getur ekki tafið við að fara að sjálfsala. Ekki er sanngjarnt að ætlast til þess að foreldri sem kemur eitt síns liðs með slasað/veikt barn á bráðamóttöku láti greiðslu stöðugjalds seinka því að barnið komist undir læknishendur.

Viðbúið er hins vegar að þeir sem ekki geta gefið sér tíma til að sinna greiðslu stöðugjalds verði fyrir því að Bílastæðasjóður krefji þá um 6.000 kr. aukastöðugjald vegna vanrækslu. Þeir sem koma að bifreið sinni, hugsanlega í kjölfar erfiðrar reynslu inni á sjúkrahúsinu, þar sem bíður þeirra tilkynning frá Bílastæðasjóði um álagningu aukastöðugjalds, hljóta oft að upplifa það sem kaldar kveðjur samfélagsins í þeirri stöðu sem þeir eru.

Sú tillaga að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis gæti komið okkur öllum vel. Hér er um að ræða framrúðuskífu í stað gjaldmæla. Framrúðuskífan er notuð mjög víða á meginlandinu, jafnt í miðborgum sem og við aðstæður eins og hér um ræðir. Þessi möguleiki yrði í boði við innganga, a.m.k. við bráðamóttökur og fæðingardeild, en einnig aðrar deildir þangað sem fólk kann að þurfa að leita í slíkum flýti að það getur ekki tafið við að finna stæði og greiða stöðugjald. Bílastæðin skulu kyrfilega merkt til umræddra nota. Leyfilegur tími væri tilgreindur á skiltum við stæðin. Sé bifreið lagt lengur en er heimilt er lagt á stöðugjald skv. ákveðinni gjaldskrá. Klukkuna má fá víða t.d. í anddyri afgreiðslu bráðavaktar eða í móttöku og á bensínstöðvum.

Sú lausn að vera með gjaldtöku við mikilvæga innganga er ekki viðhlítandi aðferð til að bregðast við vanda sem fólginn er í ónógum fjölda bílastæða fyrir starfsmenn. Er því tilefni til að bregðast við og er ofangreindri hugmynd m.a. ætlað að bæta úr þessu ástandi. Tillaga um að fela Reykjavíkurborg í samstarfi við Landspítala – háskólasjúkrahús að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi bráðamóttöku og fæðingardeildar í neyðartilfellum hefur verið lögð fram í borgarstjórn af borgarfulltrúa Flokks fólksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×