Sökum fjárskorts starfar SÁÁ nú samkvæmt áætlun sem miðar að því að fækka innlögnum á Vog um 400 á árinu auk þess sem að frá og með deginum í dag hefur göngudeild félagsins á Akureyri verið lokað.
Sú ákvörðun kom nokkuð á óvart en nýverið samþykkti Alþingi 100 milljón króna viðbótarframlag til reksturs göngudeilda SÁÁ á Akureyri og í Reykjavík. Var Sjúkratryggingum Íslands falið að ganga til samninga við SÁÁ um rekstur göngudeildanna

„Bæjarráð ályktaði varðandi þetta mál vegna þess að það er svo galið að upplifa það að það eigi að vera klárt fjármagn frá ríkisvaldinu í göngudeildar starfsemi, meðal annars hér á Akureyri. Síðan náist einhvern veginn ekki samningar á milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ um málið og það er kominn mars og málið er ekki afgreitt sem mun bara bitna nú þegar á þeim sem allra síst skyldi, sem eru þeir sem þurfa á þjónustunni að halda,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri.
Sjúkratryggingar Íslands þurfi að skýra hvort vilji sé til þess að semja við SÁÁ eða ekki
Formaður stjórnar SÁÁ sagði í viðtali við fréttastofu á dögunum að svo virtist sem Sjúkratryggingar Íslands vilji kaupa einhverja aðra þjónustu en þá sem SÁÁ býður upp á. Á þessu vill bæjarráð Akureyrar fá nánari skýringar.
Á göngudeildum SÁÁ er veitt ýmisleg þjónusta við fólk með fíknsjúkdóma og aðstandendur þeirra, þar á meðal viðtalsþjónustu og stuðningshópa. Þangað til samningar nást er þó ljóst að á Akureyri verður allt lokað og læst og því lítið í boði fyrir þá sem nýttu sér þessa þjónustu SÁÁ á Norðurlandi.
„Ég veit ekki hvort að fólk áttar sig á hvað þetta er ofboðslega alvarlegt og það tekur mig svo sárt að þetta sé svona Manni líður bara eins og það þurfi bara einhver að klára málið og muna til hvers er verið að gera þetta og fyrir hverja,“ segir Hilda Jana.