Körfubolti

Formaður KKÍ vill þakka konum Hlyns og Jóns sérstaklega fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Sigurbjörn Jónsson með þeim Hlyni Bæringssyni og Jóni Arnóri Stefánssyni.
Hannes Sigurbjörn Jónsson með þeim Hlyni Bæringssyni og Jóni Arnóri Stefánssyni. Mynd/Fésbókarsíða Hannesar
Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, lætur sig örugglega ekki vanta í kvöld þegar íslenska karlalandsliðið í körfubolta tekur á móti Portúgal í forkeppni EM. Þetta verður sögulegt kvöld í Laugardalshöllinni því þá munu tveir af bestu körfuboltamönnum Íslands kveðja.

Hlynur Bæringsson og Jón Arnór Stefánsson spila nefnilega sinn síðasta landsleik á móti Portúgal og formaður KKÍ skrifaði stuttan pistil inn á fésbókarsíðu sína þar sem hann þakkar þessum miklu meisturum fyrir.

„Það vita allir hversu frábærir leikmenn þeir eru og því mikill missir fyrir okkur að þeir spili ekki fleiri leiki fyrir Ísland en sama tíma skiljum við mjög vel ákvörðun þeirra,“ skrifar Hannes. Hlynur er að spila landsleik númer 125 en Jón Arnór sinn hundraðasta landsleik.

Hannes vildi sérstaklega þakka fjölskyldum Hlyns og Jóns Arnórs fyrir skilninginn en það eru nú ófáir dagarnir sem þeir Hlynur og Jón Arnór hafa verið í burtu frá þeim vegna verkefna sínum með landsliðunum.

„Hlynur og Jón Arnór hafa átt mikinn og öflugan stuðning frá fjölskyldum sinum og á þessum tímamótum langar mig að þakka fjölskyldum Jón Arnórs og Hlyns fyrir þeirra skilning og góða stuðning við landsliðið á þessum tíma,“ segir Hannes og sérstakar þakkir fá síðan þær eiginkonurnar Unnur Edda Davíðsdóttir og Lilja Björk Guðmundsdóttir.

„Takk Unnur og Lilja fyrir ykkar skilning og stuðning á undanförnum árum, núna fáið þið og krakkarnir vonandi aðeins meiri tíma með strákunum,“ skrifaði Hannes en það má sjá pistil hans hér fyrir neðan.








Tengdar fréttir

Tveir lykilleikmenn kveðja 

Tveir af máttarstólpum íslenska karlalandsliðsins í körfubolta leika sinn síðasta landsleik þegar Ísland mætir Portúgal í forkeppni EuroBasket 2021 í kvöld. Þar með fara á einu bretti 225 landsleikir úr liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×