Körfubolti

Voru fimm stigum undir þegar 12,6 sekúndur voru eftir en unnu samt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Josh Giddey fagnar eftir að hafa skorað sigurkörfu Chicago Bulls gegn Los Angeles Lakers með skoti frá miðju.
Josh Giddey fagnar eftir að hafa skorað sigurkörfu Chicago Bulls gegn Los Angeles Lakers með skoti frá miðju. getty/Michael Reaves

Lokasekúndurnar í leik Chicago Bulls og Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt voru ótrúlegar. Bulls var fimm stigum undir þegar 12,6 sekúndur voru eftir en unnu samt. Josh Giddey skoraði sigurkörfuna með skoti frá miðju.

Lakers vann Indiana Pacers í gær, 119-120, þökk sé flautukörfu LeBrons James. Í nótt tapaði Lakers hins vegar á flautukörfu.

Um miðjan 4. leikhluta leiddi Lakers með þrettán stigum. Og þegar 12,6 sekúndur voru eftir kom Austin Reaves gestunum í 110-115 með því að setja niður tvö vítaskot.

Bulls svaraði með tveimur þriggja stiga körfum en Reaves kom Lakers aftur yfir, 116-117, þegar 3,3 sekúndur voru eftir.

Heimamenn tóku innkastið og Giddey fékk boltann. Þegar hann var kominn rétt aftan við miðju lét hann vaða og boltinn söng í netinu. Lokatölur 119-117, Bulls í vil.

Coby White var stigahæstur hjá Bulls með 26 stig. Giddey var með þrefalda tvennu; 25 stig, fjórtán fráköst og ellefu stoðsendingar.

Reaves skoraði þrjátíu stig fyrir Lakers og Luka Doncic skilaði 25 stigum, tíu fráköstum og átta stoðsendingum. LeBron var með sautján stig og tólf stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×