Körfubolti

Martin magnaður í sigri Alba og tryggði liðinu sigurinn af vítalínunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Martin var frábær í kvöld.
Martin var frábær í kvöld. vísir/getty
Alba Berlín er með þrjá sigra í fyrstu fjórum leikjunum er liðið vann dramatískan sigur á Ryatas Vilnius, 77-75, er liðin áttust við fyrir framan rúmlega sjö þúsund áhorfendur í Berlín.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en Vilnius leiddi með tveimur stigum eftir hann. Þeir keyrðu svo yfir heimamenn í öðrum leikhluta og leiddu með átján stigum í hálfleik, 57-39.

Í síðari hálfleik var allt annað að sjá lið Berlínar og Martin var funheitur í þriðja leikhluta. Hann negldi niður þremur þristum í þriðja leikhluta og sá til þess að munurinn var fjögur stig fyrir lokaleikhlutann, 70-64, Vilnius í vil.

Síðasti leikhlutinn var afar spennandi. Er rúm mínúta var eftir af leiknum voru heimamenn í Berlín fjórum stigum yfir en gestirnir svöruðu þá með fimm stigum í röð.

Brotið var á Martini er nokkrar sekúndur var eftir af leiknum og fór hann á línuna og skoraði úr þeim vítum. Hann tryggði því Alba tveggja stiga sigur, 77-75.

Martin átti frábæran leik. Hann skoraði 25 stig og var stigahæsti leikmaður vallarins. Að auki tók hann tvö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Hann var framlagshæsti leikmaður vallarins.

Eftir sigurinn er Alba Berlín með þrjá sigra í fjórum leikjum í riðlinum en Vilnius hefur tapað þremur af fyrstu fjórum leikjunum í riðlinum. Næst síðasta umferðin í 16-liða úrslitunum, sem eru leikin í fjórum riðlum, fer fram í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×