Körfubolti

Verður að­eins sá á­tjándi til að spila níu­tíu lands­leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson spilar tímamótalandsleik í kvöld en leikurinn á móti Ungverjum verður númer níutíu á landsliðsferlinum.
Ægir Þór Steinarsson spilar tímamótalandsleik í kvöld en leikurinn á móti Ungverjum verður númer níutíu á landsliðsferlinum. FIBA Basketball

Ægir Þór Steinarsson spilar í kvöld sinn nítugasta landsleik fyrir Ísland og sama kvöld getur hann hjálpað íslenska landsliðinu inn á Eurobasket í þriðja sinn.

Fyrir leikinn í kvöld hafa aðeins sautján leikmenn náð að spila níutíu landsleiki fyrir Ísland.

Síðastur á undan Ægi til að komast í þennan hóp var Hörður Axel Vilhjálmsson í ágúst 2021. Jón Arnór Stefánsson náði þessu 2017 og þeir Hlynur Bæringsson og Helgi Már Magnússon bættust báðir í hópinn í leik á móti Belgum í lok ágúst 2015.

Fyrstur til að spila níutíu landsleiki fyrir Íslands hönd var Jón Sigurðsson 12. apríl 1981. Torfi Magnússon bættist í hópinn í apríl 1984, Valur Ingimundarson lék sinn nítugasta landsleik í desember 1988 og Jón Kr. Gíslason varð fjórði meðlimur hópsins í apríl 1991.

Ægir lék sinn fyrsta landsleik á móti Kína út í Kína í september 2011. Hann hefur síðan spilað landsleik á öllum árum nema árinu 2014.

Ægir hefur spilað þessa 89 landsleiki fyrir þrjá þjálfara eða þá Craig Pedersen (72), Peter Öqvist (13) og Pétur Má Sigurðsson (4).

Ægir hefur spilað flesta leiki á móti Belgum eða sex en jafnar það í kvöld því þetta er í sjötta sinn sem hann spilar með A-landsliðinu á móti Ungverjalandi. Ægir hefur verið í sigurliði í tveimur af þessum fimm leikjum á móti Ungverjum.

„Þetta er búið að vera langur gangur allan minn feril. Maður hefur tekið þátt í mörgum skemmtilegum leikjum. Maður trúir því eiginlega ekki að leikirnir séu orðnir níutíu og að maður sé enn í þessu,“ sagði Ægir Þór í spjalli við Aron Guðmundsson í dag en það má sjá tengil á allt viðtalið hér fyrir ofan.

  • Flestir leikir fyrir íslenska A-landsliðið:
  • 1. Guðmundur Bragason [1987-2003] 170 landsleikir
  • 2. Valur Ingimundarson [1980-1995] 167
  • 3. Jón Kr. Gíslason [1982-1995] 157
  • 4. Logi Gunnarsson [2000-2018] 147
  • 5. Torfi Magnússon [1974-1987] 134
  • 6. Hlynur Bæringsson [2000-2023] 131
  • 7. Guðjón Skúlason [1988-1999] 122
  • 8. Jón Sigurðsson [1968-1984] 120
  • 9. Teitur Örlygsson [1986-2000] 118
  • 10. Friðrik Stefánsson [1997-2008] 112
  • 11. Herbert Arnarson [1992-2002] 111
  • 12. Falur Harðarson [1989-2000] 106
  • 13. Jón Arnar Ingvarsson [1990-2001] 104
  • 14. Jón Arnór Stefánsson [2000-2019] 100
  • 15. Hörður Axel Vilhjálmsson [2007-2023] 96
  • 16. Helgi Már Magnússon [2002-2015] 95
  • 17. Páll Axel Vilbergsson [1996-2009] 93
  • 18. Ægir Þór Steinarsson [2011-2025] 89



Fleiri fréttir

Sjá meira


×