Upp­gjör: Ung­verja­land - Ís­land 87-78 | Af­leitur annar leikhluti mjög dýr

Árni Jóhannsson skrifar
ísland - ítalía19401
vísir/Anton

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta gat tryggt sig inn á lokakeppni EM, EuroBasket, í þriðja sinn í kvöld. Ísland átti hinsvegar ekki erindi sem erfiði þegar upp var staðið. Eftir frábæra byrjun hrundi leikurinn og munurinn sem Ungverjar náðu að byggja upp og tap, 87-78, staðreynd og EM sætið í hættu.

Eftir frábæra byrjun þá þar sem Ísland komst tíu stigum yfir, 4-14, þá fór allt í skrúfuna hjá íslenska liðinu. Ungverjaland steig harðar fram varnarlega, fóru að hitta vel en Ísland náði að halda sjó og voru tveimur stigum yfir 20-22 og allt í lagi. Körfubolti að sjálfsögðu leikur áhlaupa og maður vonaði að Íslandi næði öðru áhlaupi. 

Það gerðist hinsvegar ekki. Ungverjum óx ásmegin á meðan loftið tæmdist úr blöðrunni hjá íslenska liðinu. Það hvorki gekk né rak hjá okkar mönnum og tapaðir boltar kostuðu liðið ótrúlega mikið og holan sem var byrjuð að myndast dýpkaði og dýpkaði. Ungverjar unnu leikhlutann 28-11 og leiddu með 16 stigum í hálfleik. Zoltan Perl leiddi sína menn áfram og skoraði nánast úr hverju einasta skoti og það dró úr sjálfstrausti okkar manna. Staðan 48-32 en eins og frægt er orðið gat EM sætið verið tryggt með því að tapa með minna en fjórum stigum.

Það má ekki taka það af íslenska liðinu að árarnar fóru alls ekki í bátinn. Það var reynt eins og hægt var að koma sér inn í leikinn en það gekk ekki sem skildi. Körfur fylgdu ekki varnarstoppunum, sóknarfráköstin kostuðu liðið en Ísland vann þriðja leikhluta með einu stigi. Það var jákvætt en það dugði ekki. 

Fjórði leikhluti hófst og Ungverjar héldu Íslendingum í seilingarfjarlægð. Svo fóru okkar menn að herða varnarleikinn og körfur fylgdu. Kristinn Pálsson setti niður þrist og kom muninum niður í níu stig og jók það sjálfstraustið í okkar mönnum. Elvar bætti við þrist og tvær troðslur frá Tryggva voru sjálfstraustaukandi og munurinn allt í einu kominn niður í fimm stig og 2:29 eftir. Zoltan Perl setti þá niður tvö stig og bætti svo víti við en Haukur Helgi svaraði. Staðan 84-78 og minna en hálf mínúta eftir og Ísland var komið aftur í séns á að tryggja EM sætið í dag.

Tryggvi varði þá skot en Ungverjar náðu í enn eitt sóknarfrákastið. Þriggja stiga skot Ungverjana klikkaði en aftur náðu Ungverjar sókanrfrákasti en brunnu inni á skotklukkunni en það var leiðrétt því boltinn hafði naumlega viðkomu í hringnum. Ungverjar fengu þá boltann aftur og Reuvers negldi niður þriggja stiga skoti og enn eitt höggið í kviðinn á Íslendingum lenti og leikurinn fjaraði út.

Það er enn séns og það er að vinna Tyrki heima og/eða að reiða okkur á að Ítalía vinni Ungverja á heimavelli. Það er allavega öruggt að sunnudagurinn verður taugatrekkjandi fyrir körfuboltafjölskylduna en trúin er enn til staðar. Það er bara lengri leiðin sem við förum á Eurobasket.

Atvik leiksins

Ungverjar náðu í 15 sóknarfráköst í leiknum í dag en það var það síðasta sem sveið mest. Ísland var sex stigum undir og hefðu þeir klófest boltann þegar Reuvers henti boltanum út þá hefðu strákarnir okkar átt möguleikann á að komast niður fyrir fjögurra stiga múrinn og tryggja sætið á Eurobasket. Það varð ekki en skaðinn gerðist í öðrum leikhluta. Ísland fékk á stig 16 stig í fyrri hálfleik einum saman og það skapaði holuna sem var ekki hægt að koma sér upp úr.

Stjörnur og skúrkar

Íslenska liðið allt verður að vera í skúrka sætinu. Íslenska liðið náði ekki að fylgja eftir frábærri byrjun og ákefðin sem þarf að vera til staðar, íslenska geðveikin og allt það, var ekki til staðar nema í byrjun og enda leiks og körfuboltaleikur er 40 mínútur. Enn eitt dæmið um þetta ákefðarleysi er að Ísland braut ekki af sér fyrr en 90 sekúndur voru eftir af öðrum leikhluta en Ísland virtist ekki geta snert andstæðinginn.

Martin Hermannsson var þó frábær sóknarlega og skoraði 25 stig og klikkaði bara á einu skoti. Það dugði bara ekki því miður.

Zoltan Perl var svo stjarna Ungverja í dag, skúrkur í okkar augum, en hann var í öðrum heimi í dag og virtist ekki geta klikkað á skoti. Hann endaði með 25 stig og virkaði hvert einast eins og högg í magann.

Dómarar

Ekkert út á þá að setja. Gerðu vel og leiðréttu það sem þurfti að leiðrétta. Því miður þurfti það að vera í lok leiksins þegar Ísland hefði getað komist undir fjögurra stiga muninn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira