Viðskipti erlent

Neytendur sagðir vantreysta áhrifavöldum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hvers kyns förðunarmyndbönd njóta mikilla vinsælda. Stærsta snyrtivörufyrirtæki heims gerir sér grein fyrir því og ver um helmingi alls markaðsfjár síns á samfélagsmiðlum.
Hvers kyns förðunarmyndbönd njóta mikilla vinsælda. Stærsta snyrtivörufyrirtæki heims gerir sér grein fyrir því og ver um helmingi alls markaðsfjár síns á samfélagsmiðlum. Getty/AzmanJaka
Þrátt fyrir að rúmur helmingur ungra neytenda láti auglýsingar á samfélagsmiðlum hafa áhrif á kauphegðun sína segist mikill meirihluti aðspurðra vantreysta svokölluðum áhrifavöldum. Í könnun sem framkvæmd var fyrir BBC Radio 4, útvarpsstöð á vegum breska ríkisútvarpsins, sögðu 82 prósent þátttakenda að þeir ættu oft erfitt með að greina hvenær áhrifavaldar hefðu fengið greitt fyrir kynningar sínar.

Áhrifavaldar hafa verið mikið til umræðu á síðustu árum, meðfram auknum vinsældum samfélagsmiðla. Um er að ræða einstaklinga, sem oftar en ekki eru með marga fylgjendur á Instagram, Facebook eða Snapchat, og fengnir eru af fyrirtækjum til að auglýsa hvers kyns varning eða þjónustu.

Mál tveggja íslenskra áhrifavalda vakti töluverða athygli fyrr á árinu en Neytendastofa gerði þeim að taka skýrar fram að færslur þeirra, sem unnar voru í samstarfi við tæknifyrirtæki, væru kostað samstarf. Eftir að málið komst í hámæli minnti Neytendastofa á að um auglýsingar á samfélagsmiðlum giltu skýrar reglur, þannig að ekki færi á milli mála í framsetningunni að áhrifavaldurinn hefði fengið greitt fyrir færsluna.

Sjá einnig:
Þetta eru reglurnar sem áhrifavaldar eiga að fylgja

Í frétt breska ríkisútvarpsins um fyrrnefnda könnun  er tekið fram að þarlend yfirvöld séu nú að íhuga að gefa út sambærilegra reglur og þær sem Neytendastofa hefur tekið saman. Þar að auki sé til rannsóknar hvort að áhrifavaldar leyni því að færslur þeirra séu kostaðar.

Niðurstöður könnunarinnar benda einnig til að um 54 prósent fólks á aldrinum 18-34 ára leyfðu kynningum áhrifavalda að móta kauphegðun sína. Rúmlega 1000 manns tóku þátt í könnuninni og er haft eftir einum aðstandenda hennar á vef BBC að niðurstöðurnar gefi til kynna að neytendur, þeir bresku í það minnsta, séu alla jafna nokkuð vel með á nótunum þegar kemur að auglýsingum áhrifavalda. Engu að síður sé oft óljóst hvenær áhrifavaldar eigi í kostuðu samstarfi og að ungir neytendur séu nokkuð áhrifagjarnir.

Ætla má að stórfyrirtæki geri sér grein fyrir ítökum áhrifavalda. Í frétt BBC er sérstaklega minnst á L'Oreal Group, stærsta snyrtivörufyrirtæki heims, verji um helmingi alls markaðsfjár síns á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir

Fjörutíu ábendingar um duldar auglýsingar á einni viku

Tugir tilkynninga hafa borist Neytendastofu síðustu vikur um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum og bloggsíðum. Sviðsstjóri á neytendaréttarsviði segir neytendur meðvitaðri en áður og að áhrifavaldar sem hafi fengið sendar athugasemdir frá Neytendastofu taki þeim alvarlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×