Viðskipti erlent

Kæra FIFA fyrir miðasölubrask fyrir HM á næsta ári

Kjartan Kjartansson skrifar
Heimsmeistarabikarinn sem sigurvegarinn á fær í sinn hlut. FIFA malar gull en spilling hefur grasserað á meðal æðstu stjórnenda þar um árabil.
Heimsmeistarabikarinn sem sigurvegarinn á fær í sinn hlut. FIFA malar gull en spilling hefur grasserað á meðal æðstu stjórnenda þar um árabil. Vísir/EPA

Svissnesk eftirlitsstofnun með veðmálastarfsemi hefur lagt fram kæru á hendur Alþjóðaknattspyrnusambandinu vegna viðskipta þess með sýndareignir í tengslum við miðasölu fyrir heimsmeistaramótið á næsta ári. Salan sé í reynd ólögleg veðmálastarfsemi.

Kæran snýst um svo svokölluð stafræn skírteini (NFT) en það er tegund af sýndareignum sem hafa orðið fyrirferðarmiklar á undanförnum árum. Skírteinin innihalda stafrænar útgáfur af atvikum á mótum FIFA og spjöld með leikmönnum í takmörkuðu upplagi.

Sumum þessara skírteina fylgir réttur til þess að kaupa miða á ákveðna leiki á heimsmeistaramótinu sem verður haldið í Norður-Ameríku á næsta ári. Sá réttur er þó háður ýmsum breytum, meðal annars hvort að lið þess sem kaupir skírteinið komist á mótið. Skírteinin eru seld á vef FIFA og ganga svo kaupum og sölum á sérstöku markaðstorgi á vegum sambandsins.

Svissneska eftirlitsstofnunin hóf nýlega frumkvæðisathugun á NFT-sölu FIFA. Kæruna lagði hún svo fram á föstudag, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Höfuðstöðvar FIFA eru í Zürich í Sviss.

„Á meðan á rannsókn okkar stóð voru grunsemdir staðfestar um að collect.fifa.com [innskot blaðamanns: sýndareignasölusíða FIFA] bjóði upp á veðmálastarfsemi sem er ekki með starfsleyfi í Sviss og er þar af leiðandi ólögleg,“ sagði stofnunin í yfirlýsingu.

FIFA hvetti notendur síðu sinnar til þess að safna og skiptast á rafrænu skírteinunum til þess að fá aðgang að miðasölu á leiki á HM. Aðeins væri hægt að taka þátt með því að leggja fé undir og ávinningurinn væri fjárhagslegur sem byggði á handahófskenndum útdrætti.

„Út frá sjónarhóli laga um fjárhættuspil eru tilboðin sem um ræðir að hluta til happdrætti og að hluta til íþróttaveðmál,“ sagði ennfremur í tilkynningu eftirlitsstofnunarinnar.

FIFA hefur sagt að kaupréttur á miðum í gegnum sölu á NFT-eignir sé viðbragð sambandsins við gríðarlegri umframeftirspurn eftir miðum á leiki á heimsmeistaramótinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×