Skoðun

Sókrates á barnum

María Bjarnadóttir skrifar
Sókrates notaði samræðuna til þess að draga fram sjónarmið um flókin og einföld mál. Hann gekk um Aþenu og spurði samferða­fólk sitt spurninga eins og „hvað er vinátta?“ og „hvað er hugrekki?“ og það var allt svo merkilegt að Plató vinur hans skrifaði niður samtölin til að varðveita þau og viskuna sem í þeim fólst.

Plató var auðvitað ekki að skrásetja þessi samtöl í rauntíma. Til þess hefði hann þurft að hafa aðgang að tækni sem varð ekki til fyrr en frekar nýlega, svona í sögulegu samhengi. Þá hefði Plató bara getað haldið sig nálægt Sókratesi, til dæmis á þarnæsta borði við hann á barnum, og tekið upp samtöl meistarans á símann sinn. Hann gæti sent fjölmiðlum upptökuna ef hann nennti ekki að slá þetta inn í tölvuna sjálfur. Það væri auðvitað mjög ljótt að gera og jafnvel ólöglegt. En kannski áhugavert.

Hugsanlega hefðu samræður Sókratesar á barnum litast af kvenfyrirlitningu eins og hjá sumum okkar kjörnu fulltrúum í nútímanum. Honum til varnar bjó hann í samfélagi þar sem konur þóttu ekki hafa neitt efnislegt fram að færa, þrælahald var útbreitt og kynferðisleg misnotkun barna þótti í lagi. Sumir okkar kjörnu fulltrúa hins vegar hafa verið andlit alþjóðlegrar herferðar til þess að berjast gegn kvenfyrirlitningu, verið hampað á heimsvísu sem leiðtogum í baráttunni fyrir kynjajafnrétti og kynnt jafnrétti kynjanna sem eina af útflutningsafurðum Íslands. Sömu menn og segja hjá Sameinuðu þjóðunum að karlar þurfi að taka þátt í að berjast gegn kynjamismunun sitja á barnum með vinum sínum og frussa út úr sér kvenfyrirlitningu. Merkilegt hvernig boðskapurinn breytist þegar hann færist úr ræðu í samræðu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×