Skoðun

Ekkert svar!

Þorsteinn Sæmundsson skrifar
Hvað hefur félagsmálaráðherra að fela?

Síðastliðið vor lagði greinarhöfundur fram tvær fyrirspurnir til félags- og jafnréttisráðherra sem vörðuðu viðskipti með fullnustueignir Íbúðalánasjóðs.

Hin fyrri varðaði uppgreiðslu þriggja fyrirtækja á Suðurnesjum á lánum til íbúðakaupa. Lánveitingar sjóðsins til slíkra fyrirtækja eiga að byggjast á því að fyrirtækin reki óhagnaðardrifna starfsemi. Svar ráðherrans var ekkert svar. Þar kom fram að með upplýsingar um fyrirtækin sem í hlut eiga beri að fara sem trúnaðarmál. Ekki er hægt að fallast á að upplýsingar sem varða meðferð opinberra fjármuna séu trúnaðarmál. Því verður áfram leitast við að nálgast upplýsingarnar sem ráðherra neitar að leggja fram.

Seinni fyrirspurnin varðaði upplýsingar um sölu fullnustueigna Íbúðarlánasjóðs síðustu 10 ár. Hversu margar íbúðir hefðu verið seldar, hverjum og við hvaða verði. Eftir rúma þrjá mánuði (svarfrestur er 15 dagar) barst svar sem leiddi í ljós að á síðustu 10 árum hefðu alls um 3.600 íbúðir verið seldar fyrir rétt rúma 57 milljarða króna. Gleymum ekki að á bak við hverja sölu er fjölskylda sem missti heimili sitt. Ekki var uppgefið í svarinu hverjir hefðu keypt, einstklingar eða fyrirtæki og var borið við persónuverndarsjónarmiðum.

Fyrirspurnin var því endurtekin hvað það varðaði. Hófst þá nokkurra mánaða tafaferli þar sem ráðherra leitaði ásjár hjá Persónuvernd. Persónuvernd hafði ekki skoðun á málinu. Enn tafði ráðherra málið og undir sumarlok sendi hann fjögurra blaðsíðna lista með nöfnum til Alþingis með þeim skilaboðum að Alþingi sjálft mætti meta hvort birta ætti svarið eður ei.

Að sjálfsögðu hafnaði Alþingi því að ritskoða svör Framkvæmdavaldsins og endursendi svarið sem ófullnægjandi. Á þessum tímapunkti hafði ráðherrann eytt nógu miklum tíma til að nýtt þing var tekið til starfa og þar af leiðandi þurfti að endurnýja fyrirspurnina. Það var gert í byrjun þings um miðjan september en svarið sem þá lá fullbúið í félags- og jafnréttis/barnamálaráðuneytinu liggur þar enn. Vart vil ég trúa því að ráðherra hafi að nýju lagst á Persónuvernd til að kreista út hagfelldara álit fyrir sig og nánustu vandamenn.

Verði reyndin sú að svo hafi verið og að Persónuvernd skipti um skoðun er málið orðið enn alvarlegra.

Í örstuttu máli: Ráðherra í ríkisstjórn sem m.a. var stofnuð til að efla Alþingi hefur komist upp með að svara annað hvort ekki eða ófullnægjandi fyrirspurnum þingmanns sem lagðar voru fram fyrir tæpum átta mánuðum síðan. Ráðherra móast enn við að svara. Því er spurt: Hvers vegna er ráðherrann í feluleik með tæpa 60 milljarða af almannafé. Almenningur á rétt, raunar heimtingu á að fá að vita hverjir voru að véla með þessi verðmæti.

Hvað hefur ráðherrann að fela?

Höfundur er þingmaður Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×