Skoðun

Sólskin í hillu

María Bjarnadóttir skrifar
Í vikunni sá ég, á internetinu, að Bill Gates gaf öllum sem útskrifuðust úr menntaskóla í Bandaríkjunum í ár bókina Factfulness, eftir lækninn og metsöluhöfundinn Hans Rosling. Auðvitað á ekki að trúa öllu sem er á internetinu, en þetta var trúverðugt af ýmsum ástæðum.

Ég tók eftir þessu af því að sama bók birtist fyrir nokkrum vikum í bókahillunni heima hjá mér. Kannski er ekki merkilegt að það birtist bók í þar til gerðri hillu, en það er það heima hjá mér. Málið er nefnilega að maðurinn minn er með mjög alvarlega bókakaupafíkn sem hefur valdið verulegri fækkun í hópi þeirra sem vilja aðstoða okkur við búferlaflutninga. Vegna þessa, og full tíðra búferlaflutninga á milli landa síðasta áratuginn, fór fram ströng samningalota á heimilinu sem leiddi til samkomulags um að kaup á bókum í pappírsformi sé nánast bara aðeins fyrir barnabækur og mikilvægar lögfræðibækur. Samhliða fékk hann svo Kindle í jólagjöf, undir þeim formerkjum að gamla máltækið um að bókastaflinn vaxi en veggjaplássið ekki ætti enn við.

Það var þess vegna sem það var óvænt að sjá bókina í hillunni, en ekki í Kyndlinum, þar sem hinar bækurnar hans Rosling eru geymdar.

Þannig atvikaðist það að ég fletti í gegnum Factfulness í stað þess að horfa á efnisveitu eitt kvöldið. Að blaða í bókinni er eins og að taka sólskin úr hillunni. Undirtitill bókarinnar gefur vísbendingu um glætu, en á blaðsíðunum eru áminningar um hversu miklu heimurinn hefur áorkað í átt að jafnrétti, frelsi og bræðralagi. Það er bjartsýni og sólskin í tölfræðinni, eitthvað sem gæti nýst í þessu svokallaða sumri á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×