Erlent

Blendnar tilfinningar Suður-Kóreumanna í aðdraganda fundar Trump og Kim

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/AP
Íbúar Suður-Kóreu eru í senn vongóðir og fullir efasemda um fund Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í Singapúr þann 12. júní. Fólk vonast til þess að fundurinn muni draga úr spennu á svæðinu og mögulega leiða til friðar. Yfirvöld Suður-Kóreu freista þess nú að byrja fund leiðtoganna í Singapúr á því að binda formlega enda á Kóreustríðið með friðarsamkomulagi.

Samið var um vopnahlé árið 1953 en friðarsamkomulag var aldrei gert og því hafa Norður- og Suður-Kóreu tæknilega verið í stríði í tæp 70 ár.

Í Suður-Kóreu hefur fólk þó séð yfirvöld Norður-Kóreu gagna að baki orða sinna áður og óttast að slíkt hið sama gæti gerst nú. Blaðamenn AP ræddu við íbúa um fund Trump og Kim.



Þar lýsti fólk blendnum tilfinningum fyrir fundinn. Einn viðmælandi sagði Suður-Kóreumenn í rauninni ekki vita hvað Kim vildi fá út úr fundinum en vonaðist hann til þess að Norður-Kórea mundi láta kjarnorkuvopn sín af hendi. Annar sló á svipaða strengi og sagði andrúmsloftið á Kóreuskaganum mun betra en það var í fyrra þegar Norður-Kórea skaut hverri eldflauginni á loft á fætur annarri og hótaði stríði.

Talsmaður Utanríkisráðuneytis Suður-Kóreu sagði í gær að viðræður um formlegt friðarsamkomulag væru þegar hafnar. Embættismenn frá Bandaríkjunum, og Kóreuríkjunum báðum væru að ræða leiðir til að binda enda á stríðið.



Hann sagði þó að þær viðræður ættu sér stað samhliða viðræðum um kjarnorkuvopn Norður-Kóreu og önnur öryggisatriði.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×