Erlent

Gefa grænt ljós á kröfur um skráningu líf­fræði­legs kyns í vega­bréfum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Málið varðar hagsmuni bæði einstaklinga sem eru trans og intersex, það er að segja með ódæmigerð kyneinkenni.
Málið varðar hagsmuni bæði einstaklinga sem eru trans og intersex, það er að segja með ódæmigerð kyneinkenni. Getty/Bloomberg/Al Drago

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur lagt blessun sína yfir ákvörðun ríkisstjórnar Donald Trump um að hætta að heimila einstaklingum að velja kyn á vegabréfum.

Um er að ræða ákvörðun sem mun standa á meðan málið fer í gegnum dómskerfið.

Rökstuðningur meirihlutans var á þá leið að það að krefjast þess að vegabréf sýndu líffræðilegt kyn við fæðingu fæli ekki í sér brot á jafnréttislögum, ekki frekar en að krefjast þess að vegabréf sýndu það ríki þar sem viðkomandi fæddist.

Minnihlutinn, Ketjani Brown Jackson, Elena Kagan og Sonia Sotomayor, gagnrýndu hins vegar að það virtist vera orðin vinnuregla hjá stjórnvöldum að biðla til hæstaréttar um inngrip, þegar aðgerðir þeirra væru stöðvaðar á neðri dómstigum.

Þá sagði í minnihlutaálitinu, sem ritað var af Jackson, að meirihlutinn hefði rangt fyrir sér. Hún hefði hafnað umleitan stjórnvalda, þar sem skaðlegar afleiðingar reglubreytingarinnar ættu augljóslega að vega þyngra en „óútskýrður“ og „óskiljanlegur“ áhugi stjórnvalda á að koma henni í gegn.

Alríkisdómari í Massachusetts skipaði stjórnvöldum að setja breytingarnar á bið og heimila fólki áfram að velja kyn á vegabréfum, á meðan málið rataði sína leið í dómskerfinu. Áfrýjunardómstóll staðfesti ákvörðunina.

Stjórnvöld skutu málinu þá til hæstaréttar og fóru fram á tímabundinn úrskurð í málinu. Sögðu þau meðal annars að almennir borgarar ættu ekki að geta þvingað stjórnvöld til að nota rangar upplýsingar um kyn, sérstaklega á skilríkjum sem væru eign ríkisins.

Lögmenn sóknaraðilans sögðu hins vegar að breytingarnar væru til þess fallnar að svipta einstaklinga nýtanlegum skilríkjum og getunni til að ferðast örugglega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×