Fótbolti

Eiður Smári: Madrid mun lyfta bikarnum

Einar Sigurvinsson skrifar
Eiður Smári í baráttunni við Igor Biscan í undanúrslitum Meistaradeildarinnar árið 2005. Liverpool sló Chelsea úr keppninni og endaði á að vinna AC Milan í ógleymanlegum úrslitaleik.
Eiður Smári í baráttunni við Igor Biscan í undanúrslitum Meistaradeildarinnar árið 2005. Liverpool sló Chelsea úr keppninni og endaði á að vinna AC Milan í ógleymanlegum úrslitaleik. getty
„Liverpool hafa verið frábærir seinni hluta tímabilsins. En Madrid er með reynsluna, þeir vita hvernig á að gera þetta. Þeir eru með leikmenn sem geta breytt leikjum á einu augnabliki,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen þegar Omnisport falaðist eftir áliti hans á leik kvöldsins.

Liverpool og Real Madrid mætast í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld og telur Eiður Smári að Madridarliðið sé líklegra til sigurs.

„Ég held að með reynslu sinni síðustu tvö ár og með þeirri sögu og hefð sem félagið býr yfir, muni Madrid lyfta bikarnum.“

Eiður Smári vann Meistaradeildina árið 2009 með Barcelona en hann lék á ferlinum 45 leiki í keppninni með Barcelona og Chelsea.

„Liverpool hefur marga möguleika í leik sínum. Lykilatriðið er skipulagið í vörninni. Vörnin er miklu betri þetta tímabilið en hún hefur verið síðustu ár,“ segir Eiður Smári.

„Síðan ertu með þrjá leikmenn uppi á topp sem geta breytt hvaða leik sem er. [Sadio] Mane, [Roberto] Firmino og [Mohamed] Salah eru í formi. Þegar þeir spila saman eru þeir nálægt því að vera hættulegasta sóknarþríeykið í evrópskum fótbolta.“

Liverpool og Real Madrid mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu klukkan 18:45. Meistaradeildarupphitun hefst klukkan 18:15 í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×