Skoðun

Höfum opið

Orri Hauksson skrifar
Við viljum geta tengst netinu hvenær og hvar sem er. Ef okkur dettur í hug að koma myndefni til vina – eða verða okkur úti um sjónvarpsefni, upplýsingar eða tónlist – viljum að geta treyst á að komast samstundis í traust samband. Aðgangstækin okkar eru síminn, tölvan, sjónvarpið, úrið og alls konar búnaður.

Á næstu árum munum við tala íslensku við tækin okkar. Þau munu auk þess sjálf eiga samskipti innbyrðis. Við erum þannig hreint ekki komin á neina endastöð þróunar, en erum þegar góðu vön. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er Ísland nú með bestu tækniinnviði landa heims. Opinberir aðilar eiga hluta þeirra innviða sem lagðir eru í jörðu. Síðastliðna tvo áratugi hefur Reykjavíkurborg gegnum dótturfélög sín varið um 30 milljörðum á núvirði til að leggja ljósleiðara inn í hús á suðvesturhorninu.

Nú eru að koma kosningar. Áhugavert er að vita skoðun frambjóðenda á því hvort megi opna þessar fjarskiptalagnir almennings. Það er skoðun undirritaðs að þessir innviðir ættu að vera opnir fyrir allar útgáfur af þjónustufyrirtækjum sem vilja keppa um hylli fólks fyrir stafrænar lausnir. Nú er staðan sú að þegar borgarfyrirtækið er beðið að opna á og leigja út þann óvirka aðgang að innviðum sem önnur sveitarfélaganet á Íslandi og í Evrópu veita, er komið að lokuðum dyrum. Einungis er veitt ein leið inn í kaplana, um þeirra eigin miðlægu heildaruppsetningu og endabúnað. Allt eða ekkert. Þessir afarkostir eru óvenjulegir og óhagkvæmir. Tvíverknaður, umhverfisrask og sóun eru meðal afleiðinganna. Lokunin heldur aftur af þróunarmöguleikum, sem opið fyrirkomulag leysir úr læðingi.

Síminn á ekki kost á nýta þessa tugmilljarða fjárfestingu almennings á meðan þetta lokaða fyrirkomulag er við lýði. Í mörgum hverfum og bæjarfélögum kemur þetta ekki að sök, þar sem mun fleiri en Orkuveitan leggja fjarskiptanet og ljósleiðara á Íslandi. Hins vegar væri grátlegt að grafa aftur upp garða og götur þar sem þegar er búið að leggja. Það er vel hægt að nýta betur þær eignir, sem við eigum öll saman. Árið er 2018 – höfum opið.

Höfundur er forstjóri Símans




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×