Skoðun

Gufurnar

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Ef Ingólfur Arnarson væri að velja nafn á höfuðborg Íslands í dag yrði Reykjavík líklega aftur málið. Í stað jarðhitagufu sæi hann manngerða gufu blasa við hvar sem hann stigi fæti niður.

Gufan er orðin svo algeng sjón að sumir foreldrar kippa sér ekki upp við það þótt börnin þeirra séu orðin háð henni. Segja að það sé mun betra en ef þau væru að reykja sígarettur. En það sem gleymist oft er að síðustu ár voru reykingar hverfandi meðal barna – þangað til gufan barst til landsins.

Það er nefnilega hægt að selja okkur allan fjandann. Árið 1950 var okkur selt að það væri hollt að reykja sígarettur og árið 1980 að ljósabekkjaböð væru heilsusamleg. Það tók vísindin hálfa mannsævi að sanna að hvort tveggja veldur krabbameini.

Því spyr maður, ætlum við að læra af þessari reynslu? Það verður ekki fyrr en eftir 40 ár sem við sönnum hvaða áhrif rafsígarettur hafa á líkamann – þó vitum við nú þegar að þær geta innihaldið efni sem valda krabbameini.

Fyrir utan óvissuna um hvort barn hljóti lífshættulegan sjúkdóm af gufunni, þá á barn sem verður þræll gufunnar eftir að upplifa mikla vanlíðan sem tengist fráhvörfum: örvæntingu, óþolinmæði, reiði, leiða, kvíða, óróleika, svefntruflunum, martröðum, skorti á einbeitingu, eirðarleysi, hausverk, þreytu og jafnvel þunglyndi. Hver vill að barn sitt þurfi að þola slíkt?

Þá tvo mánuði sem ég hef dvalist í Kaliforníu hef ég ekki séð eina manneskju með rafsígarettu. Og það sést heldur enginn reykja. Ballið er búið hérna. Fólk kýs betri lífsgæði fyrir sig og börnin sín. Á meðan gýs gufan upp á hverju horni í Reykjavík, sennilega meiri gufa en þegar Ingólfur nam land 874.




Skoðun

Sjá meira


×