Erlent

Gafst stuttur tími til að bregðast við

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kolniðamyrkur var á því svæði sem áreksturinn varð.
Kolniðamyrkur var á því svæði sem áreksturinn varð. Skjáskot
Lögreglan í Tempeborg í Arizona hefur birt myndband sem sýnir þegar sjálfkeyrandi bíll, á vegum akstursþjónustunnar Uber, ók á gangandi vegfaranda með þeim afleiðingum að hann lést.

Myndbandið má sjá hér að neðan. Þar sést aðdragandi árekstursins en sjálft höggið var klippt út vegna þess að það þótti geta valdið óhug áhorfenda.

Um tvö sjónarhorn er að ræða. Annars vegar sést út um framrúðu bílsins en hitt sjónarhornið er innan úr bílnum. Þar sést „ökumaðurinn,“ það er að segja einstaklingurinn sem sat við stýrið, taka andköf þegar hann sér vegfarandann nálgast óðfluga.

Sjá einnig: Kona lést þegar hún varð fyrir sjálfkeyrandi bíl

Eins og sjá má var niðamyrkur og skyggni lítið. Ökumaðurinn, sem þó var ekki með augun á veginum, hafði því lítinn tíma til að grípa inn í aðstæðurnar. Engin gangbraut var þar sem vegfarandinn fór yfir götuna og telja tækniáhugamenn að það kunni að hafa gert sjálfstýringu bílsins enn erfiðara fyrir að meta vettvanginn.

Umferðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hefur sent hóp rannsakenda til Arizona til að afla upplýsinga um slysið. Uber hefur í kjölfarið stöðvað tilraunir sínar með sjálfkeyrandi bíla í Tempe en einnig í Pittsburgh, San Francisco og Toronto í Kanada.

Tilraunir tæknifyrirtækja með sjálfkeyrandi bíla fara fram á almennum vegum í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, bæði með ökumann í bílstjórasætinu og mannlausa.


Tengdar fréttir

Hyundai vill fara varlega

Talsmenn suðurkóreska bílarisans Hyundai sögðu í gær að fyrirtækið ætlaði að gæta fyllstu varúðar við framleiðslu sjálfkeyrandi bíla eftir að sjálfkeyrandi bíll leigubílaþjónustunnar Uber keyrði á konu í Bandaríkjunum með þeim afleiðingum að hún lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×