Skoðun

Betri þjónusta við ungbarnafjölskyldur

Skúli Helgason skrifar
Í leikskólum Reykjavíkur er unnið afburðastarf við að mennta og stuðla að alhliða þroska yngstu kynslóðarinnar. Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að því að koma meirihluta barna inn á leikskóla um 18 mánaða aldur. Það hefur þó hægt á þróuninni að erfiðar hefur gengið að manna allar stöður á leikskólunum undanfarið, eins og í fleiri sveitarfélögum, enda atvinnuleysi í sögulegu lágmarki og skortur á fagmenntuðu fólki.

Vanþekking frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins

Eyþór Arnalds, sem nú sækist eftir að verða oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, birti grein í vikunni þar sem hann leggur til að mannekla verði leyst með því að skera niður stjórnunarkostnað sem hafi vaxið til muna að undanförnu. Þetta lýsir yfirgripsmikilli vanþekkingu, því „yfirbyggingin“ á skóla- og frístundasviði hefur minnkað verulega á kjörtímabilinu, stöðugildum miðlægrar skrifstofu hefur fækkað og laun til yfirstjórnar dregist saman um nærri 12% sem hlutfall af heildarlaunum á vettvangi, eða niður í 2,4%.

Betur gengur í ráðningarmálum

Í ágúst sl. vantaði 132 starfsmenn til starfa á leikskóla borgarinnar. Í dag vantar 46 eða 0,7 stöðugildi að meðaltali á hvern leikskóla. Fullmannað er í meirihluta leikskóla og í 8 af hverjum 10 leikskólum vantar frá 0-2 stöðugildi. Þetta er betri staða en á sama tíma í fyrra en vissulega þarf að gera enn betur. Aðgerðir í leikskólamálum sem samþykktar voru í haust eru farnar að skila árangri, samhliða almennri kynningarherferð, markvissri notkun samfélagsmiðla, samstarfi við ráðningarstofur, frjáls félagasamstök o.s.frv.

Nýjar ungbarnadeildir

Leikskólagjöld eru þau lægstu á landinu í Reykjavík, fyrstu ungbarnadeildirnar tóku til starfa í haust og nú er unnið að því að fjölga þeim, með fleiri ungbarnadeildum í þeim hverfum sem eftir standa og þar sem aðstæður eru sérstaklega heppilegar fyrir slíka starfsemi. Við viljum að ungbarnadeildir verði valkostur í öllum hverfum borgarinnar og þar verði hægt að bjóða börnum yngri en 18 mánaða leikskólaþjónustu við hæfi.

Öflugra dagforeldrakerfi

Þjónusta dagforeldra er mikilvægur hlekkur í þjónustukeðjunni við ungbarnafjölskyldur og vilji okkar er til þess að efla það kerfi og styrkja bæði út frá faglegum þáttum, öryggi og áreiðanleika. Sérstakur starfshópur mun leggja fram tillögur um úrbætur á því kerfi fljótlega og vilji okkar stendur til þess að hvetja dagforeldra í auknum mæli til að starfa saman í pörum, til að mæta enn betur óskum foreldra um öruggari og áreiðanlegri þjónustu. Stefnan er sú að hækka endurgreiðslur til foreldra til að draga úr aðstöðumun.

Brúum bilið

Til framtíðar er stefnan að bjóða yngri börnum en 18 mánaða leikskólaþjónustu í áföngum. Það mun kalla á byggingu nýrra leikskóla í öllum borgarhlutum, endurbætur á núverandi húsnæði og átak í að bæta starfsumhverfi leikskólastarfsfólks. Við munum vinna með nýjar tillögur starfshóps um betri aðbúnað, meira rými fyrir leik og starf og aukinn stuðning við fagstarfið. Aukin þjónusta við ungbarnafjölskyldur og bætt vinnuumhverfi starfsfólks verða forgangsverkefni í málaflokknum á þessu ári og þeim næstu.

 

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður skóla- og frístundaráðs.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×