Erlent

Ekki hægt að útiloka þjóðarmorð í Mjanmar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Barn í Thyangkhali-flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess.
Barn í Thyangkhali-flóttamannabúðum Róhingja í Bangladess. Nordicphotos/AFP

Ekki er hægt að útiloka að aðgerðir stjórnvalda og hersins í Mjanmar gegn þjóðflokki Róhingja í Rakhine-héraði flokkist sem þjóðarmorð. Þetta staðhæfði Zeid Ra'ad al-Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, á fundi Mannréttindaráðs SÞ í Genf í gær. Til þessa hefur einungis verið talað um þjóðernishreinsanir.

Rúmlega 600 þúsund Róhingjar hafa flúið frá Rakhine til Bangladess frá því í ágúst þegar herinn hóf aðgerðir sínar gegn þeim. Herinn hefur hins vegar hafnað því að um þjóðernishreinsanir sé að ræða sem og því að ráðist sé á almenna borgara. Einblínt sé á skæruliða.

Stjórnvöld í Mjanmar og Bangladess komust í síðasta mánuði að samkomulagi um að hundruð þúsunda flóttamanna skyldu send til baka til Mjanmar. Hefur þetta samkomulag verið gagnrýnt harðlega.

Zeid Ra'ad al-Hussein, mannréttindastjóri SÞ.Nordicphotos/AFP

Zeid sagði á fundi gærdagsins að ekki ætti að senda Róhingja heim aftur nema viðvera mannréttindaeftirlitsmanna væri tryggð í héraðinu. Taldi hann upp ýmis brot sem herinn er sakaður um. Meðal annars um að skjóta, stinga og berja almenna borgara til bana. Þá var herinn sakaður um að varpa handsprengjum á almenna borgara og brenna hús með fjölskyldum innandyra.

„Í ljósi þess að Róhingjar líta á sjálfa sig sem sjálfstæðan þjóðflokk með eigin tungu og menningu, og í ljósi þess að gerandinn í málinu telur Róhingja tilheyra öðrum þjóðflokki, þjóð, kynþætti eða trú, er rétt að spyrja hvort nokkur geti útilokað að um þjóðarmorð sé að ræða,“ sagði Zeid. Dómstólar myndu skera úr um hvort um þjóðarmorð væri að ræða.

Htin Lynn, fulltrúi Mjanmar í ráðinu, neitaði því að fyrrnefnd brot hefðu átt sér stað. Sagði hann jafnframt að yfirvöld í Mjanmar og Bangladess væru að vinna saman að fyrrnefndri heimkomu flóttamannanna. Ekki yrðu settar upp sérstakar búðir í Mjanmar og Sameinuðu þjóðirnar fengju að koma að heimkomunni. Lynn vildi þó ekki samþykkja að tryggja óhindraðan aðgang rannsakenda og eftirlitsmanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×