Skoðun

Stjórnmálin verða að virka

Bjarni Benediktsson skrifar
Um nokkurt skeið hef ég sagt að líklega hafi aldrei verið jafn bjart fram undan hjá okkur Íslendingum og í dag. Við höfum með afar farsælum hætti leyst úr helstu viðfangsefnum eftirhrunsáranna og lifum nú okkar lengsta samfellda hagvaxtarskeið. Því samhliða vex bjartsýni landsmanna enda eru tækifærin víða. Fólk vill láta til sín taka, gera betur, sækja fram og byggja upp landið okkar.

Ein mikilvæg forsenda þess að úr tækifærum landsmanna rætist er að stjórnmálin virki. Eins og sakir standa er augljóst að svo er ekki.

Við töpum dýrmætum tíma með því að efna til kosninga, einungis ári eftir þær síðustu. Pólitískur óstöðugleiki býður einnig heim ýmiss konar hættu og kostnaði. Þegar hefur komið fram að stjórnarslitin hafi á fyrsta degi þurrkað út 32 milljarða sparnað landsmanna. Væntingar um verðbólgu hækkuðu á mörkuðum en það getur leitt til hærri vaxta. Fleira mætti tína til, fjárfestar, bæði innlendir og erlendir, hafa tilhneigingu til að halda að sér höndum þar sem pólitísk óvissa ríkir. Slíkt dregur úr hagvexti og störf tapast.

En jafnvel þótt við horfum fram hjá bæði tíma og fjármunum þá er endurheimt stöðugleika í stjórnarfari mikils virði sem sjálfstætt mál. Líkur á því að samstaða og samheldni meðal landsmanna vaxi helst í hendur við að stjórnmálin fari að virka á nýjan leik. Í því einu og sér eru þess vegna fólgin mikil samfélagsleg verðmæti.

Með hjálp kjósenda getum við komið aftur röð og reglu á stjórnarfarið. Við eigum að hafna því að stjórnmálin hrökkvi í baklás þegar á móti blæs. Það er ekki til árangurs fallið að setja öðrum í sífellu afarkosti þegar mynda þarf starfhæfa ríkisstjórn eða fá niðurstöðu í stór framfaramál. Það þarf meiri ábyrgð, festu og sáttfýsi.

Kosningarnar nú eru vissulega merki um óstöðugleika og óvissan kostar tíma og fjármuni. En um leið eru þær stórkostlegt tækifæri til að skapa betri grundvöll fyrir sterkari stjórnmál sem virka. Nýtum þetta tækifæri vel.



Höfundur er forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×