Yfirvöld í Kína stefna á að banna framleiðslu og sölu á dísel- og bensínbílum. Bílamarkaðurinn þar í landi er sá stærsti í heimi. BBC greinir frá.
Aðstoðariðnaðarráðherra Kína segir að undirbúningur bannsins sé hafin en ekki hafi verið ákveðið hvenær bannið taki gildi.
28 milljón bílar voru framleiddir í Kína á síðasta ári, þriðjungur allra framleiddra bíla það árið.
Bæði Bretland og Frakkland hafa tilkynnt um áætlanir um svipað ban og Kínverjar íhuga nú en Evrópuríkin stefna á að bannið taki gildi fyrir 2040.
Yfirvöld í Kína hafa á undanförnum árum reynt að stemma stigu við miklu mengunarvandamáli landsins. Er einkum horft til bílaflotans í þeim efnum.

