Fótbolti

Kasper Schmeichel gerði það í gær sem pabba hans tókst aldrei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kasper Schmeichel og Peter Schmeichel.
Kasper Schmeichel og Peter Schmeichel. Vísir/Samsett/Getty
Kasper Schmeichel, markvörður ensku meistaranna í Leicester City, fékk í gær á sig sitt fyrsta mark í Meistaradeildinni en hann var búinn að halda hreinu í fyrstu fjórum leikjum sínum.

Kasper Schmeichel þurfti að sækja boltann tvisvar í markið sitt í 2-1 tapi Leicester á útivelli í gærkvöldi á móti Sevilla í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum.

Kasper Schmeichel hafði haldið hreinu í fyrstu fjórum leikjum sínum í Meistaradeildinni og þegar Pablo Sarabia skoraði hjá honum á 25. mínútu í gær var Kasper búinn að spila í 385 mínútur í Meistaradeildinni án þess að fá á sig eitt einasta mark.

Það er fróðlegt að vera Kasper Schmeichel saman við föður hans Peter Schmeichel sem lék sína fyrstu leiki í Meistaradeildinni með Manchesster United haustið 1994.

Peter Schmeichel var búinn að fá á sig mark eftir aðeins 27 mínútur og hann fékk alls á sig fimm mörk á fyrstu 385 mínútum sínum í Meistaradeildinni. Fyrsta markið á Peter í Meistaradeildinni skoraði Stefan Pettersson leikmaður sænska liðsins IFK Göteborg.

Kasper Schmeichel afrekaði líka annað í gær sem Peter Schmeichel náði aldrei á sínum Meistaradeildarferli. Kasper varði þá vítaspyrnu frá Sevilla-manninum Joaquin Correa.

Vítið kom strax á 14. mínútu og Kasper Schmeichel var þá ekki enn búinna að fá á sig sitt fyrsta mark í Meistaradeildinni. Það mark kom reyndar aðeins ellefu mínútum síðar en Sevilla yfirspilaði Leicester-liðið í fyrri hálfleiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×