Veltan var mest á höfuðborgarsvæðinu og nam þar rúmlega 315 milljörðum króna, samanborið við rúmlega 257 milljarða á sama tímabili í fyrra. Fjöldi samninga í ár var 7.182 á tímabilinu og var því meðalverð á eign um 44 milljónir króna.

Sé landið skoðað í heild var langmest aukning í veltu á fyrstu ellefu mánuðum ársins á Reykjanesinu. Þar jókst veltan um 12 milljarða, eða 80 prósent á milli ára. Hún dróst mest saman á Austurlandi eða um tuttugu prósent.
Í Hagsjá Landsbankans sem byggir á gögnum frá Þjóðskrá kom fram í lok nóvember að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefði hækkað um 13,6 prósent á síðustu 12 mánuðum. Um var að ræða mestu hækkanir á fasteignaverði á einu ári frá 2007.
„Þessi aukning í veltu er rosalega mikil en þetta skýrist af vaxandi veltu og hækkandi fasteignaverði. Aukning veltu í krónutali er sambland af vaxandi veltu, fjölda samninga, hækkandi verði og kannski spilar inn í að verið sé að selja mismunandi gerðir íbúða. Kannski er meðalaldur íbúða lægri í ár eða þær eru örlítið stærri, þá kemur það fram í þessu þó að fermetraverð sé ekki að hækka eins mikið,“ segir Konráð S. Guðjónsson, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka.
Hann bendir á að verðhækkun á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega á svæðum eins og Breiðholti, hafi ýtt undir meiri veltu.
Að mati Konráðs verða áframhaldandi hækkanir á fasteignamarkaði. Greiningardeild Arion banka hefur spáð að verðið muni hækka um 11 prósent á næsta ári en eitthvað minna árið 2018. „Spár geta hins vegar verið sjálfsuppfyllandi, ef líkur eru á hækkunum er fólk tilbúið til að setja pening inn á markaðinn því það býst við að það sé trygg ávöxtun og það þýðir að hækkunin verði af sjálfu sér vegna væntinga,“ segir Konráð.
Að mati Konráðs er að mestu leyti innistæða fyrir hækkununum. „Ef maður horfir á markaðinn í heild sinni er þetta í takt við aukinn kaupmátt og verðrými.“ Hann bendir þó á að framboð á íbúðum sé að minnka og ef svo haldi áfram gæti það farið að koma niður á veltunni á næsta ári.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum.