Viðskipti innlent

Milljarðar í olíuleit á Drekanum

Svavar Hávarðsson skrifar
Olíurannsóknarskipið Oceanic Challenger á Reyðarfirði árið 2015 við upphaf rannsókna sem kínverska ríkisolíufélagið CNOOC leiðir.
Olíurannsóknarskipið Oceanic Challenger á Reyðarfirði árið 2015 við upphaf rannsókna sem kínverska ríkisolíufélagið CNOOC leiðir. vísir/egill aðalsteinsson

Fyrirtækin sem hafa leyfi til rannsókna á Drekasvæðinu hafa þegar varið nær þremur milljörðum króna til rannsókna, að mati sérfræðings Orkustofnunar. Fyrir árslok liggja fyrir niðurstöður mælinga sem byggja á þeim tveimur rannsóknaleyfum sem í gildi eru og framhald rannsókna skýrist.



Það er Skúli Thoroddsen, lögfræðingur hjá Orkustofnun, sem hefur reiknað út hver kostnaður fyrirtækjanna er þegar orðinn, og byggir hann útreikninga sína á ýmsum upplýsingum sem hann og Orkustofnun hafa viðað að sér og hafa aðgang að. Hafa ber í huga, segir Skúli, að vegna þess hversu fá fyrirtæki ráðast í olíuleit um þessar mundir sé kostnaðurinn aðeins brot af því sem áður var.



„Þetta eru ekki tölur úr bókhaldi fyrirtækjanna svo því sé haldið til haga. Ég set þessar tölur fram svo menn átti sig á því hvað rannsóknirnar eru umfangsmiklar og dýrar,“ segir Skúli sem tók saman gögnin vegna hugmynda um riftun Íslands á núverandi leyfum, sem hann telur fullvíst að hefði í för með sér milljarða kostnað fyrir íslenska ríkið og því vart raunhæfur kostur. Eins og kunnugt er hafa fimm af sjö stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi lýst yfir efasemdum um frekari leit og vinnslu olíu á Drekasvæðinu og eru loftslagssjónarmið ástæða þess. Sjálfur er Skúli ekki sannfærður um þessi rök enda sé sá möguleiki fyrir hendi að olía eða gas á Drekasvæðinu geti hjálpað til við að draga úr brennslu kola og þannig hjálpað til við að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.



Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Eykon Energy, segir um vanmat að ræða hjá Skúla, en er ekki í aðstöðu til að segja hverju það nemur.

Skúli Thoroddsen

„En skiptingin á fjárfestingunni liggur fyrir. Hana er að finna í leyfunum sjálfum,“ segir Heiðar en í leyfinu sem CNOOC International leiðir er skiptingin þannig að 60% af kostnaði leggur CNOOC fram, Petoro 25% og Eykon 15%. Í minna leyfinu sem Ithaca Petroleum leiðir er skiptingin þannig að Petoro leggur fram 25%, Kolvetni (í eigu Eykon Energy) 18,75% og Ithaca 56,25%.



Að mati sérfræðinga kínverska olíufélagsins CNOOC hníga rök til þess að halda rannsóknum áfram. Næsti fasi rannsókna yrði með þrívíðum endurkastsmælingum (3D seismic) á völdum stöðum innan leyfissvæðisins á Drekanum. Rannsóknaáætlun gerir ráð fyrir að þær hefjist ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2018. Gefi þær rannsóknir svo aftur tilefni til frekari skoðunar, yrði leitarhola boruð í framhaldinu á árunum 2022-2026. Reynslan sýnir enn fremur að vinnsla á olíu og gasi getur varla hafist innan áratugar frá því að vinnanlegt magn finnst en um það er enn mikil óvissa.



Fari svo að olíuleit á Drekasvæðinu verði haldið áfram og rannsóknarhola eða -holur verða boraðar er ljóst að þeir þrír milljarðar sem þegar hefur verið varið til þeirra, að mati Skúla, eru aðeins dropi í hafið miðað við heildarkostnaðinn.



Frekari svör í desember

Kínverska olíufélagið CNOOC International og samleyfishafar þess, Eykon ehf. og norska ríkisolíufélagið Petoro, hafa gefið út að niðurstöður tvívíðra endurkastsmælinga sem fram fóru 2015 gefi tilefni til áframhaldandi rannsókna.



Niðurstaðna sams konar mælinga kanadíska félagsins Ithaca Petroleum, sem er hinn rekstraraðili leyfishafa olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu, ásamt Kolvetni og fyrrnefndu Petoro, er að vænta í byrjun desember, en ákvörðun þarf að liggja fyrir í því leyfi fyrir janúar 2017 um hvort haldið verður áfram með leyfið eða það gefið eftir.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×