Viðskipti innlent

Ekkert fékkst upp í 100 milljóna gjald­þrot Banka­strætis club

Árni Sæberg skrifar
Birgitta Líf stofnaði Bankastræti club.
Birgitta Líf stofnaði Bankastræti club. Vísir/Sigurjón

Ekkert fékkst upp í kröfur í bú félagsins B Reykjavík ehf., sem rak skemmtistaðinn Bankastræti club á árunum 2021 til 2023. Lýstar kröfur námu rétt tæplega 101 milljón króna.

Í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu segir að félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 19. febrúar síðastliðinn. Engar eignir hafi fundist í búinu og skiptum í því hafi verið lokið 27. ágúst 2025 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá var félagið í jafnri eigu þeirra Birgittu Lífar Björnsdóttur og félaganna RK bygg ehf. og KS 24 ehf. þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta. RK bygg er í eigu Þórlaugar Ólafsdóttur og KS 24 er í eigu Karenar Rutar Sigurðardóttur. Karen Rut er eiginkona Sverris Þórs Gunnarssonar, sem hlaut nýverið milljarðs króna sekt fyrir stórfelld skattalagabrot. Félag í hans eigu var áður eigandi þriðjungshlutar í B Reykjavík.

Vildi auka fjölbreytni

Bankastræti club var stofnaður í júlí árið 2021 af Birgittu Líf, áhrifavaldi og World Class-erfingja. Staðurinn var reistur á rústum gamalgróna skemmtistaðarins B5, sem lengi var rekinn í sama húsi, að Bankastræti 5 í Reykjavík.

Á sínum tíma sagði Birgitta að uppleggið hafi verið að opna skemmtistað sem væri nokkuð frábrugðinn þeim sem fyrir voru í miðbænum.

„Mig langaði að auka fjölbreytnina hérna í miðbænum. Ég hef farið á nokkra staði úti í Miami og LA og mig langaði að fanga þá stemningu,“ sagði Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Bankastræti club varð B5, B og fljótlega Kabarett

Sverrir Einar Eiríksson, sem um þessar mundir er helst kenndur við Nýju vínbúðina, tók við rekstri Bankastrætis club sumarið 2023 og boðaði breytingar. Fyrst breytti hann heiti staðarins í B5 en eftir að eigendur heitisins B5 hótuðu öllu illu breytti hann heitinu í B.

Hann hóf þó að kalla staðinn B5 á ný skömmu síðar en skellti svo í lás í byrjun maí í fyrra. Vísir greindi svo frá því í byrjun ágúst að unnið væri að því að opna nýjan stað í Bankastræti 5. 

Staðurinn, sem ber nafnið Kabarett, verður í senn fjöllistahús og vettvangur fyrir hinar ýmsu listir.

Bræðurnir Sverrir og Sigurjón Garðarssynir standa að baki nýja staðnum. Í samtali við fréttastofu sagði Sverrir hugmyndina hafa sprottið hjá bróður sínum, sem á hlut í brugghúsinu Hella bjór, sem bruggar meðal annars mjöð.

Sá staður hefur ekki enn verið opnaður, eftir því sem blaðamaður kemst næst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×