Fótbolti

Eiður Smári að hefja leik í níunda landinu: „Þetta stóð aldrei til“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen er orðinn mikill ferðalangur.
Eiður Smári Guðjohnsen er orðinn mikill ferðalangur. vísir/getty
Eiður Smári Guðjohnsen hefur leik með sínu nýja liði FC Pune í indversku úrvalsdeildinni eftir mánuð en Eiður og félagar mæta Mumbai City í fyrstu umferðinni 3. október.

Eiður Smári samdi í síðasta mánuði við indverska liðið en þetta er 17. liðið sem hann spilar fyrir á ferlinum og níunda landið sem hann spilar í fyrir utan Ísland. Eiður hefur áður spilað í Hollandi, Englandi, Spáni, Frakklandi, Grikklandi, Belgíu, Kína og Noregi.

Sjá einnig:Eiður Smári: Ísland hefur alltaf átt góða fótboltamenn en nú tekur heimurinn eftir þeim

Hann segir að það hafi aldrei staðið til að gerast svona mikill ferðalangur en fagnar því að fá tækifæri til að sjá heiminn. Þá hefur það orðið auðveldara fyrir hann að flytjast á milli landa í seinni tíð þar sem hann gerir það einn.

„Á síðustu árum hefur það reynst mér auðveldara að flytja á milli staða. Fjölskyldan er oftast búsett á Spáni þar sem börnin mín ganga í skóla þannig ég flyt einn. Því er auðveldara fyrir mig að flytjast frá einu landi til annars,“ segir Eiður Smári í viðtali við Sportskeeda.

„Á síðustu árum hef ég fengið tækifæri til að spila í mismunandi löndum, sjá heiminn og upplifa nýja menningarheima, einnig utan fótboltans. Ég lít á þetta sem tækifæri fyrir mig til að víkka sjóndeildarhringinn. Þetta stóð aldrei til en svona þróaðist bara ferilinn,“ segir Eiður Smári Guðjohnsen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×