Íslenski boltinn

Við höfum þroskast mikið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR.
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR. vísir/vilhelm
Bjarni Guðjónsson er ekki óvanur bikarúrslitaleikjum en hann lék fjóra slíka á leikmannsferlinum, einn með ÍA og þrjá með KR. Í dag verður hann í öðru hlutverki, sem þjálfari KR. „Það er að aðeins meiru að huga en þegar maður var leikmaður,“ sagði Bjarni, sem segir þá miklu bikarreynslu sem býr í KR-liðinu koma að góðum notum í dag.

„Já, það hjálpar eitthvað aðeins en skilur ekki á milli feigs og ófeigs. Valsliðið er feikilega öflugt; vel mannað, vel skipulagt og með góðan þjálfara þannig að við eigum von á hörkuleik.“

Valsmenn fóru illa með KR í deildarleik liðanna 7. júní sem þeir unnu með þremur mörkum gegn engu. En hvað lærðu KR-ingar af þeim leik? „Við höfum þroskast talsvert sem lið síðan við spiluðum við Val og bætt okkur í öllum þáttum leiksins. Við töpuðum leiknum 3-0 en vorum miklu meira með boltann, sem gefur þér nákvæmlega ekki neitt. Við gerðum dýr einstaklingsmistök sem kostuðu okkur þann leik,“ sagði Bjarni, sem segir að KR-ingar þurfi að vera vel á verði fyrir skyndisóknum Vals.

„Þeir sækja hratt á andstæðinginn og vilja komast aftur fyrir varnir hans. Við verðum að passa skyndisóknirnar hjá þeim og vera rétt staðsettir þegar við töpum boltanum,“ sagði Bjarni.

Hann hefur úr mörgum kostum að velja í framlínunni eins og mikið hefur rætt um. Bjarni segir erfitt að velja byrjunarliðið á morgun: „Það er alltaf erfitt að velja byrjunarliðið. En við gerum það samviskusamlega og af heiðarleika gagnvart sjálfum okkur og leikmönnunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×