Íslenski boltinn

Hryggsúlan í úrvalsliði fyrri umferðarinnar er úr Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn náðu í flest stig allra liða frá 2. til 11. umferð.
Valsmenn náðu í flest stig allra liða frá 2. til 11. umferð. Vísir/Vilhelm
Fjórir Valsmenn komast í ellefu manna úrvalslið Fréttablaðsins fyrir fyrri umferð Pepsi-deildarinnar en í gær sögðum við frá því að miðjumaður liðsins, Kristinn Freyr Sigurðsson, hefði verið útnefndur besti leikmaður fyrri umferðarinnar hjá Fréttablaðinu.

Kristinn Freyr er langt frá því að vera eini Valsmaðurinn í úrvalsliðinu því það má segja að öll hryggsúla úrvalsliðsins sé úr Val, allt frá danska miðverðinum Thomas Guldborg Christensen til danska framherjans Patrick Pedersen en á milli þeirra eru miðjumennirnir Kristinn Freyr og vinnuþjarkurinn Haukur Páll Sigurðsson.

Valsmenn eru ekki eina spútniklið sumarsins því framan af móti voru Fjölnismenn á hraðri leið í toppbaráttuna. Bergsveinn Ólafsson og Aron Sigurðarson komast báðir í liðið þrátt fyrir að Grafarvogspiltum hafi fatast flugið á síðustu vikum.

Blikar hafa spilað frábæran bolta í sumar en þeir eiga aðeins einn leikmann í liðinu. Fjórir af sjö varamönnum úrvalsliðsins spila aftur á móti með Breiðabliksliðinu. Blikar eiga líka tvo bestu ungu leikmennina (Höskuldur Gunnlaugsson og Oliver Sigurjónsson) og besta ellismellinn í hinum fertuga markverði liðsins, Gunnleifi Gunnleifssyni.

Topplið FH á bara einn leikmann í liðinu, sem er Atli Guðnason, og KR, sem er í öðru sæti, á „bara“ tvo leikmenn. Það er von á því að leikmenn hjá þessum svart-hvítu risum láti meira til sín taka í seinni umferðinni.

Lukkan hefur ekki leikið við alla leikmenn deildarinnar og hér á síðunni má einnig sjá þá ellefu leikmenn sem fá þann vafasama heiður að vera hluti af lánlausa liðinu eða liði leikmanna Pepsi-deildarinnar sem hafa fengið lægstu meðaleinkunn hjá blaðamönnum Vísis og Fréttablaðsins til þessa í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×