Íslenski boltinn

Rúnar Páll hitti naglann á höfuðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Præst er duglegur að messa yfir sínum mönnum.
Præst er duglegur að messa yfir sínum mönnum. Vísir/Stefán
„Það er erfitt að segja hvað er að gerast hjá okkur. Það er bara ekki sami karakter og í fyrra,“ segir Michael Præst, fyrirliði Íslandsmeistara Stjörnunnar, við Fréttablaðið um gengi meistaranna í Pepsi-deildinni til þessa.

Stjarnan hefur ekki unnið leik síðan í annarri umferð og er nú búin að tapa tveimur deildarleikjum í röð. Nú síðast steinlá liðið gegn Fjölni á heimavelli, 3-1, þar sem það var einfaldlega heppið að fá ekki verri útreið.

„Í fyrra lögðum við mikið á okkur í hverjum leik. Við fengum ekki á okkur skyndisóknir og vörnin var alltaf þétt. Núna erum við alltaf galopnir gagnvart skyndisóknum og erum að gera mistök sem við létum önnur lið gera í fyrra,“ segir Præst.

Rúnari Páli Sigmundssyni, þjálfara Íslandsmeistaranna, var nóg boðið eftir leik og sagði í viðtali að það væri ekki furða að liðið tapaði ef „leikmenn nenntu ekki að leggja sig fram“.

Præst kom ummæli þjálfarans ekkert á óvart heldur er hann fyllilega sammála Rúnari.

„Hann hitti einfaldlega naglann á höfuðið. Deildin er þannig, eins og í fyrra, að allir eru að vinna alla. Við verðum að leggja meira á okkur í hverjum einasta leik. Annars töpum við. Það er ekkert flókið. Við megum ekki bara vera ellefu leikmenn að hlaupa sem einstaklingar heldur verðum að spila sem lið. En nú höfum við náð botni,“ segir Præst.

Fyrirliðinn segir að leikmenn Stjörnunnar hafi rætt saman á æfingu í gær eftir útreiðina gegn Fjölni og að þeir ætli að snúa dæminum við áður en það verður um seinan.

„Við litum bara hver í augun á öðrum og ræddum þetta. Við ætlum að byggja upp frá vörninni núna og vera jafnöflugir og við getum spilað. Við ætlum ekki að finna taktinn með neinum glansfótbolta. Þetta snýst um að vinna leiki og við viljum sýna að við getum spilað eins og Stjarnan í fyrra,“ segir hann.

Præst segist hafa grunað að þetta gæti gerst. „Ég hélt að þetta væri einsdæmi eftir Blikaleikinn en svo mætti Fjölnir og pakkaði okkur saman. Nú þurfum við að fara spila sem lið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×