Fótbolti

Rashford mátaði treyjuna í leik sem átti ekki að fara fram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marcus Rashford kom inn á sem varamaður fyrir Barcelona í dag.
Marcus Rashford kom inn á sem varamaður fyrir Barcelona í dag. Paul Miller/Getty Images

Marcus Rashford lék sinn fyrsta leik fyrir Barcelona er liðið vann 3-1 sigur gegn japanska liðinu Vissel Kobe í dag. Í vikunni sem leið var þó búið að blása leikinn af.

Rashford kom inn á sem varamaður í hálfleik, en var svo tekinn af velli á 78. mínútu. Dro Fernandez kom inn á í hans stað og skoraði þriðja mark Börsunga.

Englendingurinn gekk til liðs við Barcelona á láni frá Manchester United á dögunum. Þegar lánsdvölinni lýkur getur Barcelona keypt Rashford fyrir um 30 milljónir punda.

Leikur Vissel Kobe og Barcelona átti þó í mikilli hættu á að vera blásinn af. Síðastliðinn fimmtudag var greint frá því að Börsungar væru hættir við leikinn vegna alvarlegra samningsbrota skipuleggjenda. Hins vegar hefur náðst að greiða úr þeirri flækju og leikurinn fór fram, japönsku aðdáendum Barcelona til mikillar gleði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×