Skoðun

Töfrum fótboltans ógnað

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Svisslendingurinn Sepp Blatter rétt marði endurkjör í forsetastól Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, í skugga lögreglurannsókna sem snúast um peningaþvætti og mútur. Lítil reisn er yfir kappanum sem hefur verið höfuð fótboltans á uppgangstímum, sem sökum spillingar og græðgi gætu snúist upp í andhverfu sína. Þetta er háalvarlegt mál, sem snertir alla heimsbyggðina.

Enginn leikur nær álíka tökum á tilfinningum karlpeningsins og fótbolti. Í Súdan og Grímsnesinu geta karlar rætt smáatvik á vellinum, sem átti sér stað fyrir langalöngu, tímunum saman. Þeir deila um hvor var betri, þessi eða hinn, æsa sig, hækka róminn og tárast af einlægri hrifningu, líkt og listviðburður sé á ferð.

Vagga fótboltans er á Wembley í London. Þar er mikið safn, þar sem þrautþjálfaðir leiðsögumenn fræða gesti um sögu íþróttarinnar. Þeir hafa fyrir satt að dag hvern, að afloknum vinnudegi, fari fram funheitar umræður milli 300 þúsund karla á krám vítt og breitt um Bretland um markið umdeilda, sem tryggði Englendingum sigur í úrslitaleiknum gegn Þjóðverjum í heimsmeistarakeppninni 1966, umdeildasta mark sögunnar.

Geoff Hurst, landsliðsmaður Englendinga, skaut í slá og niður. Rifist er um hvort boltinn var á línu, fyrir innan eða utan. Markið var dæmt gilt og tryggði Englandi jafntefli að loknum venjulegum leiktíma og heimsmeistaratitil í æsispennandi framlengingu. Sumum þykir þetta ómerkilegt karp. En það er hroki að gera lítið úr daglegu umræðuefni 300 þúsund karla, þótt þeir hafi kneyfað nokkrar ölkönnur.

Heimsmeistarakeppnin 1966 var sú fyrsta sem sýnd var beint í sjónvarpi. Milljónir manna fylgdust með keppninni heima í stofu. Beinar útsendingar voru nýjar af nálinni. Nú á tímum Sepps Blatter fylgjast vel á annan milljarð manna með heimsmeistarakeppni í beinni útsendingu. Líklega skipta karlarnir tugum milljóna, sem núna í dag ræða einstök atvik í einstökum leikjum.

Fótboltamenn verða fyrirmyndir. Ruud Gullit og Frank Rijkard voru fyrir um aldarfjórðungi fyrstu þeldökku stjörnur hollenska landsliðsins. Sagt er að þeirra frammistaða á fótboltavelli hafi um tíma haft meiri áhrif á batnandi samskipti kynþátta í heimalandinu en nokkuð annað.

Í Afríkuríkinu Líberíu var um langt árabil háð blóðug borgarastyrjöld. Þaðan er knattspyrnumaðurinn George Weah. Hann lék lengst af á Ítalíu og var talinn sá besti í heiminum. Heima í Líberíu naut hann slíkrar hylli að dæmi voru um að á meðan beinar útsendingar fóru fram legðu stríðandi fylkingar niður vopn og fylgdust saman með goðinu á skjánum. Hvergi heyrðust skothvellir á meðan leikir fóru fram.

Nú stendur litla Ísland mögulega frammi fyrir því að verða merkur hluti af sögu fótboltans. Við eigum raunhæfa möguleika á að komast í lokakeppni Evrópumótsins í Frakklandi á næsta ári. Þar með yrðum við minnsta þjóðin til að ná slíkum árangri. Verra væri ef það merka afrek verður í skugga leiðindanna, sem nú skyggja á þessa töfrandi íþrótt.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×