Skoðun

Erum við tilbúin fyrir næstu iðnbyltingu?

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar
Áratuga hefð er fyrir því að halda Iðnþing einu sinni á ári. Þá kemur fólk í íslenskum iðnaði saman og fer yfir þau málefni sem efst eru á baugi.

Iðnþing 2015 fer fram á Hótel Nordica í dag og hefst kl. 14. Þar munu leiðtogar fyrirtækja, sérfræðingar og ráðherrar ræða saman um þær stefnuáherslur sem Samtök iðnaðarins hafa sett á oddinn, það er menntun, nýsköpun og framleiðni.

Menntun er lykillinn að velmegun allra þjóða. Samtök iðnaðarins vilja efla menntun fyrir atvinnulífið. Til þess að hér megi áfram dafna öflugt atvinnulíf verðum við að fjölga iðn-, verk- og tæknimenntuðu fólki. Það er skortur á fagmenntuðu fólki á Íslandi, ekki bara í iðnaði heldur einnig í mörgum öðrum greinum svo sem ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Undanfarin ár hefur tekist að vekja áhuga ungs fólks á tækifærum innan verk- og tæknigreina á háskólastigi. Þann vöxt þarf að tryggja áfram.

Nýsköpun er forsenda framþróunar og framleiðniaukningar. Við viljum styrkja og styðja við nýsköpun á öllum sviðum. Á Iðnþingi munum við ræða nauðsyn þess að skapa nýjar lausnir til að auka framleiðni á öllum sviðum iðnaðar, jafnt hjá sprotum sem rótgrónum fyrirtækjum.

Nýsköpun og menntun eru grunnþættir sem stuðla að aukinni framleiðni. Við Íslendingar erum eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að framleiðni. Með öðrum orðum eru afköst okkar lakari í samanburði við nágrannaþjóðir. Við megum ekki og eigum ekki að sætta okkur við það. Geta okkar til að auka hér hagvöxt liggur í aukinni framleiðni og betri nýtingu mannauðs.

Það er samvinnuverkefni okkar allra að koma Íslandi í fremstu röð ríkja og skapa hér heilbrigt og öflugt atvinnulíf sem er ákjósanlegt fyrir fólk og fyrirtæki.

Velkomin á iðnþing!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×