Íslenski boltinn

Skúli Jón: Það er þeirra höfuðverkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sku´li Jón kom aftur til KR í vetur eftir nokkura ára dvöl erlendis.
Sku´li Jón kom aftur til KR í vetur eftir nokkura ára dvöl erlendis. vísir/andri marinó
Skúli Jón Friðgeirsson tekur á morgun þátt í sínum fimmta bikarúrslitaleik á ferlinum þegar KR mætir Val á Laugardalsvellinum.

Skúli spilaði síðasta hálftímann þegar KR tapaði 2-0 fyrir Keflavík árið 2006 en það var hans fyrsti bikarúrslitaleikur.

Skúli spilaði allan leikinn þegar KR vann Fjölni með einu marki gegn engu tveimur árum seinna. Hann spilaði sömuleiðis allan leikinn í 4-0 tapi KR fyrir FH 2010 og var í byrjunarliðinu þegar KR lagði Þór 2-0 ári seinna. Skúli var reyndar rekinn af velli með rautt spjald um miðjan seinni hálfleik en það kom ekki að sök.

Skúli stefnir að því að bæta þriðja bikarmeistaratitlinum í safnið á morgun.

„Jú, það er markmiðið. Við erum komnir í úrslitaleikinn og ætlum að vinna. Það er ekki gaman að tapa í úrslitaleik,“ sagði Skúli í samtali við Vísi á fundi sem var haldinn í höfuðstöðvum KSÍ í gær vegna bikarúrslitaleiksins. En hvað þarf KR að gera vel til að fara með sigur af hólmi á morgun?

„Við þurfum aðallega að hugsa um okkur sjálfa og spila okkar fótbolta. Svo þurfum við að loka á fremstu menn Vals. Þeir eru hættulegir og vilja komast aftur fyrir vörnina okkar.

„Við verðum að vera þéttir til baka til að loka á sóknaraðgerðir þeirra,“ sagði Skúli sem gerir ráð fyrir því að Patrick Pedersen, framherji Vals, verði með á morgun en hann hefur glímt við meiðsli að undanförnu.

„Það hefur engin áhrif á okkar undirbúning. Það hefur ekki verið minnst einu orði á það hvort hann verði með. Það er þeirra höfuðverkur. Við gerum ráð fyrir að allir spili og svo kemur bara í ljós hvaða Valsmenn verða með.“



Skúli varð fyrst bikarmeistari með KR 2008.vísir/anton
Valsmenn fóru illa með KR-inga í leik liðanna í Pepsi-deildinni 7. júní síðastliðinn og unnu með þremur mörkum gegn engu. En hvað lærðu KR-inga af þeim leik?

„Við sáum hvernig þeir spila og svo lærðum við að vanmeta ekki Valsmennina, þeir eru stórhættulegir sóknarlega og voru mjög flottir í þessum leik.

„Við verðum að eiga okkar besta leik til að vinna á laugardaginn,“ sagði Skúli sem segir að það gefi leiknum auka krydd að þar mætist stórveldin og erkifjendurnir KR og Valur.

„Þetta gefur þessu auka krydd. Auðvitað er þetta alltaf stór leikur en það er langt síðan KR og Valur mættust í bikarúrslitaleik.

„Þótt þessi lið hafi ekki endilega verið að berjast um titla undanfarin ár, þá er sagan stór og mikil og það gerir þetta skemmtilegra fyrir mjög marga,“ sagði Skúli að lokum.

Leikurinn hefst klukkan 16:00 á morgun og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst hálftíma fyrir leik. Þá verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Patrick, Haukur Páll og Ingvar myndu ekki spila væri leikurinn í kvöld

Patrick Pedersen, aðalframherji Valsmanna í Pepsi-deild karla, er í kapphlaupi við tímann fyrir bikarúrslitaleikinn gegn KR á laugardaginn. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, segir í samtali við Vísi að Pedersen sé ekki fótbrotinn. Um helmingslíkur eru á því að sá danski spili á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×